Enski boltinn

Hátt­settur maður innan ensku úr­vals­deildarinnar á­sakaður um að nauðga tánings­stelpu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Um er að ræða tvö atvik, annað sem gerðist á tíunda áratug síðustu aldar.
Um er að ræða tvö atvik, annað sem gerðist á tíunda áratug síðustu aldar. Getty Images

Lögreglan í Bretlandi yfirheyrði nýverið háttsettan mann innan ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu vegna ásakana um að hann hefði nauðgað stelpu sem var þá aðeins 15 ára gömul.

Þetta kemur fram í frétt í frétt Daniel Taylor á The Athletic en þar segir að sami maður sé þegar undir rannsókn vegna máls frá tíunda áratug síðustu aldar. Það mál komst í fréttirnar fyrr í sumar og greindi Vísir frá. 

Þá var talið að um knattspyrnustjóra innan ensku úrvalsdeildarinnar væri að ræða en nú hefur komið í ljós að um háttsettan aðila er að ræða sem starfar fyrir félag í deildinni eða þá deildina sjálfa.

Fyrra málið er nýlegra og mætti maðurinn sjálfviljugur til lögreglu ásamt lögfræðingi sínum til að gefa vitnisburð þann 12. júní síðastliðinn. Hann var yfirheyrður en ekki handtekinn.

Aldur þeirrar konu hefur ekki verið gefinn upp og kemur hvergi fram í yfirlýsingu frá lögreglunni í Lundúnum. The Athletic hefur margoft spurst fyrir og aðeins fengið þær upplýsingar að konan hafi verið táningur þegar atvikið átti sér stað.

Síðara málið snýr að atviki sem átti sér stað á heimili mannsins á tíunda áratug síðustu aldar, þegar konan var aðeins 15 ára gömul. Vegna lagalegra ákvæða er ekkert hægt að aðhafast í málinu þar sem það er fyrnt. Maðurinn var því ekki handtekinn.

The Athletic greinir frá því að það viti hver maðurinn er en vegna regluverks Bretlandseyja má fjölmiðillinn ekki greina frá því hver hann er. Vitað er að maðurinn er enn í starfi innan ensku úrvalsdeildarinnar.

Aldur fyrri konunnar skiptir máli þar sem enska knattspyrnusambandið gæti þá ákvarðað að hann sé möguleg ógn við börn á ákveðnum aldri og þar af gæti sambandið vikið honum úr starfi.

Talsmaður sambandsins sagði í viðtali við The Athletic að sambandið rannsaki öll mál er varða mögulega ógn við velferð barna sem og fullorðinna. Sömuleiðis sé sambandið með hin ýmsu regluverk til að tryggja öryggi fólks. Að því sögðu þá neitar sambandið að tjá sig um einstaka mál.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×