Veður

„Sumarveður“ í kortunum

Samúel Karl Ólason skrifar
Hitinn í dag verður víðast hvar fimm til tólf stig en gæti náð tuttugu stigum á Suðurlandi.
Hitinn í dag verður víðast hvar fimm til tólf stig en gæti náð tuttugu stigum á Suðurlandi. Vísir/Vilhelm

Norðlægar áttir verða ríkjandi á næstu dögum en í vikunni er útlit fyrir að landið skiptist í tvenn hvað hita varðar. Hlýrra verður á sunnanverðu landinu en svalt á því norðanverðu.

Í dag spáir Veðurstofa Íslands norðan og norðvestan fimm til tíu metrum á sekúndu, en tíu til fimmtán metrum á austanverðu landinu. Framan af degi er von á lítils háttar vætu á norðaustanverðu landinu en stytta á upp þegar líður á daginn. Austanlands á svo að fara að rigna aftur seint í kvöld og í nótt.

Hitinn í dag verður víðast hvar fimm til tólf stig en gæti náð tuttugu stigum á Suðurlandi.

„Útlit fyrir hæga vinda, skýjað með köflum og fremur hlýtt eftirfarandi daga, sannkallað sumarveður,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á þriðjudag: Norðvestlæg átt, 5-10 en 10-15 m/s með austurströndinni. Skýjað á Norður- og Austurlandi, sums staðar dálítil væta og hiti 6 til 11 stig. Annars bjartviðri með hita að 20 stigum.

Á miðvikudag: Hæg norðlæg eða breytileg átt og skýjað með köflum en bjartviðri syðra. Hiti 10 til 20 stig, hlýjast sunnanlands.

Á fimmtudag: Hægviðri og skýjað að mestu, en lítils háttar væta við suðvesturströndina. Hiti 10 til 18 stig, hlýjast sunnanlands.

Á föstudag, laugardag og sunnudag: Hægir vindar, bjart með köflum og stöku skúrir. Fremur hlýtt í veðri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×