Umfjöllun og viðtöl: Keflavík - ÍBV 0-0 | Markalaust í Keflavík

Andri Már Eggertsson skrifar
kef hulda
VÍSIR/HULDA MARGRÉT

Fyrri hálfleikur var frábær skemmtun þar sem bæði lið fengu þó nokkur dauðafæri til að komast yfir og það var með hreinum ólíkindum að það hafi verið markalaust í hálfleik. Gangur leiksins breyttist síðan algjörlega í síðari hálfleik þar sem bæði lið voru í tómum vandræðum með að skapa sér færi.

Gestirnir frá Vestmannaeyjum fengu fyrsta færi leiksins. Þegar tæplega tvær mínútur voru búnar þurfti Vera Varis, markmaður Keflavíkur að verja tvisvar. Holly Taylor Oneill átti góðan sprett á hægri kantinum þar sem hún komst í góða stöðu en Vera varði boltann út í teiginn þar sem Kristín Erna náði frákastinu en aftur varði Vera.

Fimmtán mínútum síðar misnotuðu gestirnir annað dauðafæri. Þóra Björg átti langa sendingu yfir vörn Keflavíkur þar sem Kristín Erna slapp ein í gegn en var smeyk við Veru Varis sem kom út á móti og skot Kristínar framhjá.

Eftir tuttugu og fimm mínútur breyttist gangur leiksins þar sem Keflavík fór að sækja í sig veðrið. Sandra Voitane fékk skoppandi bolta inn í teiginn beint fyrir framan sig en hitti ekki boltann.

Tíu mínútum seinna fékk Sandra annað dauðafæri þar sem hún stakk varnarmenn ÍBV af og komst ein í gegn en Guðný Geirsdóttir varði vel frá henni.

Þóra Björg Stefánsdóttir átti síðasta færi fyrri hálfleiks þar sem hún átti skot nálægt markinu en Vera Varis gerði frábærlega í að verja boltann. Það var markalaust í ansi líflegum fyrri hálfleik þar sem það var með ólíkindum að hvorugu liðinu hafi tekist að skora.

Ólíkt fyrri hálfleik fór síðari hálfleikur afar rólega af stað og liðinu voru í vandræðu með að skapa sér færi. Olga Sevcova átti fínt færi þegar tæplega sjö tíu mínútur voru komnar á klukkuna en Vera Varis varði. Einu færi Keflavíkur komu í gegnum hornspyrnur.

Keflavík var aðeins beittari í síðari hálfleik en ógnaði lítið á síðasta þriðjungi. Niðurstaðan var því markalaust jafntefli.

Af hverju endaði leikurinn með jafntefli?

Fyrir leikinn voru þetta liðin sem hafa skorað fæst mörkin á tímabilinu. Þannig það var ekkert óvænt í því að þessi leikur hafi endað með markalausu jafntefli. 

Bæði lið misnotuðu dauðafæri í fyrri hálfleik en í síðari hálfleik virkuðu bæði lið sátt með stigin og tóku enga áhættu. 

Hverjar stóðu upp úr?

Guðný Geirsdóttir, markmaður ÍBV, og Vera Varis, markmaður Keflavíkur, sáu til þessa að það kom ekki mark í fyrri hálfleik. Báðar vörðu þær afar vel og voru vel vakandi fyrir fyrirgjöfum í síðari hálfleik.

Hvað gekk illa?

Sandra Voitane misnotaði tvö dauðafæri í fyrri hálfleik. Það sama var upp á teningnum hjá ÍBV þar sem bæði Kristín Erna Sigurlásdóttir og Þóra Björg Stefánsdóttir brenndu af dauðafæri.

Hvað gerist næst?

Keflavík mætir Þrótti á Avis-vellinum næsta mánudag klukkan 19:15.

ÍBV fær Breiðablik í heimsókn næsta mánudag klukkan 18:00.

„Svekktur með að hafa ekki fengið öll stigin en ánægður með að við héldum hreinu“

Jonathan Glenn hefði viljað öll stigin í kvöldVísir/Hulda Margrét

Jonathan Glenn, þjálfari Keflavíkur, var nokkuð brattur með stigið eftir leik.

„Það er alltaf gott að halda hreinu en mér fannst við gera nóg til að vinna leikinn. En við vorum að klikka á sendingum og skotum á síðasta þriðjungi. Við fengum færi en það vantaði meira hungur til að klára þau,“ sagði Jonathan Glenn, þjálfari Keflavíkur, eftir leik.

Glenn var svekktur með að Keflavík hafi ekki tekist að skora í fyrri hálfleik þar sem heimakonur fengu færi til þess.

„Mér fannst ÍBV fá færi á fyrstu tólf mínútunum en eftir það stjórnuðum við leiknum. Ég er svekktur með að hafa ekki fengið öll stigin en ánægður með að við héldum hreinu.“

Glenn gerði sína fyrstu breytingu eftir áttatíu mínútur en hann var sáttur með jafnvægið í leiknum ásamt því vantaði leikmenn sem voru fjarverandi.

„Þetta er blanda af nokkrum hlutum. Það vantaði tvo mikilvæga leikmenn hjá okkur og mér fannst við vera með gott tak á leiknum og það væri tímaspursmál hvenær við myndum skora en markið kom ekki,“ sagði Jonathan Glenn eftir leik.

 

Bein lýsing

Leikirnir


    Fleiri fréttir

    Sjá meira
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.