Í hugleiðingum veðurfræðings segir að nótt verði vindur norðlægari og það kólni með slyddu eða rigningu norðan heiða. Búist er við hita á bilinu sjö til fimmtán stig, hlýjast á Norðaustur- og Austurlandi.
„Gengur í norðvestan storm suðaustan- og austantil á landinu í fyrramálið, en á morgun lægir smám saman og léttir til, fyrst um landið vestanvert,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á laugardag: Norðvestan 8-15 m/s um morguninn, en 15-25 suðaustan- og austantil. Slydda eða rigning norðanlands, annars úrkomulítið. Styttir upp eftir hádegi og dregur talsvert úr vindi. Hiti 2 til 10 stig, mildast syðst.
Á sunnudag (hvítasunnudagur): Suðvestan 8-15 og rigning vestantil, en úrkomulítið á austanverðu landinu. Hlýnandi veður.
Á mánudag (annar í hvítasunnu) og þriðjudag: Suðvestanátt og súld eða rigning með köflum, en yfirleitt þurrt og bjart austanlands. Hiti 9 til 20 stig, hlýjast eystra.
Á miðvikudag: Vestlæg átt, skýjað með köflum og sums staðar smáskúrir. Hiti 8 til 16 stig, mildast á Suðausturlandi.
Á fimmtudag: Vestanátt og víða léttskýjað, en skýjað vestanlands. Fremur hlýtt.