Erlent

Talsmaður Pútíns segir átök í Belgorod mikið áhyggjuefni

Samúel Karl Ólason skrifar
Úkraínskur hermaður nærri Bakhmut í austurhluta landins. Myndin tengist fréttinni ekki með beinum hætti.
Úkraínskur hermaður nærri Bakhmut í austurhluta landins. Myndin tengist fréttinni ekki með beinum hætti. AP/Libkos

Bardagar eru enn sagðir eiga sér stað í Belgorod héraði í Rússlandi, þar sem rússneskir meðlimir tveggja vopnahópa eru sagðir hafa lagt undir sig minnst eitt þorp í Rússlandi. Rússar segja mennina sem gerðu árásina vera úkraínska skæruliða en Úkraínumenn segja þá Rússa sem berjist gegn ríkisstjórn Vladimírs Pútíns, forseta Rússlands.

Annar hópurinn kallast á ensku „Freedom of Russia Legion“ og hinn kallast „Russian Volunteer Corps“. Í yfirlýsingu er árásirnar hófust sögðust hóparnir vilja binda enda á einræði í Rússlandi.

Ekki liggur fyrir hve margir menn eru í hópunum, sem eru lítt þekktir, en þeir eru búnir bæði bryn- og skriðdrekum. Eins og bent er á í frétt AP fréttaveitunnar er þetta ekki í fyrsta sinn sem meðlimir þessara vopnahópa gera árásir í Rússlandi. Þetta er þó fyrsta sinn sem slík árás stendur yfir í meira en sólarhring.

Varnarmálaráðuneyti Rússlands hélt því fram á tólfta tímanum í dag að allir óvinir hafi verið reknir frá Belgorod og að um sjötíu óvinir hafi verið felldir. Ráðuneytið birti myndefni sem á að sýna frá átökum milli rússneska hersins og umræddra hópa en þetta var fyrsta yfirlýsing ráðuneytins um ástandið í héraðinu.

Ekkert hefur þó verið staðfest enn, en fregnir hafa einnig borist af því að hóparnir hafi tekið fleiri þorp í Belgorod.

Sjá einnig: Segjast hafa tekið rússneskan bæ undir sína stjórn

Vyacheslav Gladkov, ríkisstjóri Belgorod, sagði í morgun að tólf borgarar hefðu særst í átökunum og ein eldri kona hefði látist þegar verið var að flytja hana á brot. Gladkov sagði íbúum sem hafa flúið að snúa ekki aftur strax. Þau yrðu látin vita þegar það yrði öruggt og talaði hann um það þegar „and-hryðjuverkaaðgerðum“ lýkur.

Gladkov sagði einnig í morgun að drónaárásir hefðu verið gerðar í héraðinu og að fólk hefði farist í þeim. Eitt mögulegt skotmark þessara árása var bygging FSB, Leyniþjónustu Rússlands, í Belgorod.

Ekki fundur hjá þjóðaröryggisráðinu

RIA fréttaveitan, sem er í eigu rússneska ríkisins, hafði eftir Dmitrí Peskóv, talsmanni Vladimírs Pútín, forseta Rússlands, í morgun að verið væri að vinna í því að finna hverjir mennirnir væru og hve margir þeir væru. Þá hefur TASS eftir honum að ekki standi til að boða til fundar hjá þjóðaröryggisráði Rússlands vegna átakanna, til viðbótar við þann sem skipulagður er í lok vikunnar.

Samkvæmt BBC í Rússlandi sagði Peskóv að átökin væru mikið áhyggjuefni. Talsmaðurinn sagði einnig að þetta staðfesti enn og aftur að „úkraínskir vígamenn“ héldu árásum þeirra á Rússland áfram og unnið yrði að því að koma í veg fyrir að slíkt gæti endurtekið sig.

Úkraínumenn segja að þetta séu rússneskir ríkisborgara að berjast í Belgorod og það komi Úkraínu ekki við. Ráðgjafi varnarmálaráðherra Úkraínu vildi ekki svara spurningum BBC í gær um það hver hefði útvegað vopnahópunum vopn og hergögn.

Steve Rosenberg, fréttamaður BBC í Moskvu, fór í morgun yfir það hvað rússnesk dagblöð hafa skrifað um átökin í Belgorod.


Tengdar fréttir

Segir ekkert eftir í Bakhmut nema fallna Rússa

Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, segir Bakhmut ekki í höndum Rússa. Hann segir bæinn vera dauðan og að þar væru margir fallnir. Þetta sagði Selenskí er hann var spurður út í yfirlýsingar Rússa um að Bakhmut væri í þeirra höndum eftir margra mánaða átök.

Prigozhin lýsir yfir sigri í Bakhmut, aftur

Yevgeny Prigozhin, rússneskur auðjöfur, sem rekur Wagner Group málaliðahópinn, lýsti því í dag yfir að Rússar hefðu náð fullum tökum á bænum Bakhmut í Dónetskhéraði. Rússar hafa reynt að ná bænum frá síðasta sumri en hafa orðið fyrir miklu mannfalli.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×