Erlent

Rússar vara við „gríðar­legri á­hættu“ vegna þotnanna

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Vólódímír Selenskí forseti Úkraínu faðmaði Rishi Sunak forsætisráðherra Bretlands á leiðtogafundi G-7-ríkjanna í Hiroshima í morgun.
Vólódímír Selenskí forseti Úkraínu faðmaði Rishi Sunak forsætisráðherra Bretlands á leiðtogafundi G-7-ríkjanna í Hiroshima í morgun. Getty/Rousseau

Rússar vara Vesturlönd við því að senda Úkraínumönnum bandarískar F-16 orrustuþotur og segja Vesturlönd halda áfram stigmögnun stríðsins. Selenskí segir tíðindin söguleg.

Joe Biden Bandaríkjaforseti samþykkti á leiðtogafundi G-7-ríkjanna í gær að landið styddi alþjóðlegt verkefni sem snýr að því að þjálfa úkraínska flugmenn á vestrænar herþotur og þar á meðal F-16, sem Úkraínumenn hafa beðið eftir um langt skeið.

Vólódímír Selenskí Úkraínuforseti sagði „tíðindin söguleg“ en hann mætti óvænt til Japans í morgun, þar sem leiðtogafundur G-7-ríkjanna fer fram. Á fundinum hefur meðal annars verið ákveðið að herða viðskiptaþvinganir og refsiaðgerðir gegn Rússum.

Sjá einnig: Selenskí kominn til Japans

„Vesturlönd halda áfram að ýta undir stigmögnunina og taka þar með mikla áhættu. Við munum tvímælalaust taka þetta með í reikninginn. Við höfum alla burði til að mæta – og ná – væntanlegum markmiðum okkar,“ sagði Alexander Grushko við rússneska ríkismiðilinn TASS.

Lönd á borð við Holland, Danmörk og Belgíu hafa öll yfir F-16 herþotum að ráða. AP fréttaveitan og Guardian greindu frá.


Tengdar fréttir

Prigozhin lýsir yfir sigri í Bakhmut, aftur

Yevgeny Prigozhin, rússneskur auðjöfur, sem rekur Wagner Group málaliðahópinn, lýsti því í dag yfir að Rússar hefðu náð fullum tökum á bænum Bakhmut í Dónetskhéraði. Rússar hafa reynt að ná bænum frá síðasta sumri en hafa orðið fyrir miklu mannfalli.

Hafa gert umfangsmiklar breytingar á rússneska hernum

Forsvarsmenn rússneska hersins hafa þurft að gera umfangsmiklar breytingar á heraflanum, sökum mikils mannfalls og annarra vandræða tengdum innrás Rússa í Úkraínu. Margar af þessum breytingum hafa reynst vel og er herinn betur fallinn að átökunum í austurhluta landsins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×