Erlent

Skutu eigin dróna niður yfir Kænugarði

Samúel Karl Ólason skrifar
Reykur yfir Kænugarði í kvöld.
Reykur yfir Kænugarði í kvöld. Getty/Muhammed Enes Yildirim

Loftvarnarflautur ómuðu og sprengingar heyrðust í Kænugarði í kvöld þegar Úkraínumenn neyddust til að skjóta niður eigin dróna sem þeir höfðu misst stjórn á.

Frekar en að láta drónann fljúga áfram stjórnlausan var hann skotinn niður yfir miðbæ Kænugarðs en íbúar, sem margir hverjir voru á leið í neðanjarðarbyrgi og lestarstöðvar, fönguðu atvikið á myndband.

Myndböndin sýna að skotið var á drónann úr byssum, sem hæfðu hann ekki. Honum var svo grandað með eldflaug og féll brak hans logandi til jarðar. Dróninn, sem var af gerðinni Bayraktar TB-2 og framleiddur í Tyrklandi, mun hafa verið skotinn niður af hermönnum sem sérhæfa sig í að skjóta niður dróna eins og Shahed-sjálfsprengidrónana frá Íran sem Rússar nota í miklu magni til árása í Úkraínu.

Í yfirlýsingu frá flugher Úkraínu segir að líklegast hafi verið um bilun að ræða og að málið sé til rannsóknar. Engan hafi sakað þegar dróninn var skotinn niður.

Fregnir hafa borist af frekari sprengingum í Kænugarði en það hefur ekki verið staðfest. Rússar hafa gert tíðar árásir á höfuðborgina og aðrar borgir í Úkraínu á undanförnum dögum.

Þá hafa Rússar sakað Úkraínumenn um að bera ábyrgð á því að tveir drónar voru sprengdir í loft upp yfir Kreml í vikunni og saka þá um að hafa reynt að myrða Vladimír Pútín, forseta Rússlands. Hann var þó ekki í Kreml þegar sprengingarnar áttu sér stað og þær virðast hafa valdið litlum skemmdum.

Úkraínumenn þvertaka fyrir að hafa gert árásina.


Tengdar fréttir

„En okkur líkar við flugvélarnar ykkar“

Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, stakk óvænt upp kollinum í Helsinki í Finnlandi í dag þar sem hann fundaði með leiðtogum Norðurlanda. Honum var heitið auknum stuðningi frá Norðurlöndum en enn sem áður þrýsta Úkraínumenn á að fá herþotur frá Vesturlöndum.

„Við réðumst ekki á Pútín eða Moskvu“

Volodomír Selenskí Úkraínu­for­seti segir á­sakanir rúss­neskra stjórn­valda á hendur Úkraínu um að hafa staðið fyrir bana­til­ræði gegn Vla­dimír Pútín Rúss­lands­for­seta í Moskvu í morgun ekki eiga við rök að styðjast.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×