Enskir fjölmiðlar greina frá því að staða Paratici, sem er nánasti yfirmaður Grétars Rafns Steinssonar, sé í algjörri óvissu hjá Tottenham eftir að FIFA tilkynnti í dag að beiðni ítalska knattspyrnusambandsins um útvíkkun bannsins hefði verið samþykkt.
Paratici var dæmdur í 30 mánaða bann frá fótbolta vegna sinnar þátttöku í því að falsa bókhald Juventus, sem í vetur leiddi til þess að fimmtán stig voru dregin af Juventus í ítölsku A-deildinni.
Spurs' search for a manager may have to be done without their director of football.#TelegraphFootball | #THFC
— Telegraph Football (@TeleFootball) March 29, 2023
Paratici fékk þyngstu refsinguna af þeim tólf einstaklingum sem var refsað vegna málsins en upphaflega átti bann þeirra frá fótbolta aðeins að gilda á Ítalíu. FIFA hefur hins vegar breytt því.
Þessum fregnum er líst sem miklu áfalli fyrir Tottenham í Daily Mail þar sem segir að Paratici hafi átt að fara fyrir leitinni að nýjum knattspyrnustjóra í stað Antonio Conte sem nú hefur kvatt félagið.
FIFA statement on Fabio Paratici
— Fabrizio Romano (@FabrizioRomano) March 29, 2023
Following a request by Italian FA, the disciplinary committee has decided to extend sanctions imposed on several football officials to have worldwide effect .
Appeal will be crucial to understand Tottenham director s future. #THFC pic.twitter.com/nEaJ5c56QD
Samkvæmt Sky Sports má Paratici núna ekki taka neinn þátt í viðskiptum með leikmenn. Hann má ekki tala við umboðsmenn eða gera samninga, sem er stór hluti af hans starfslýsingu sem yfirmaður knattspyrnumála, en má starfa innan Tottenham og mæta þar á fundi. Beðið er viðbragða frá Tottenham við tíðindum dagsins.

Í gær var viðtal við Paratici birt á heimasíðu Tottenham þar sem hann sagði félagið vera einbeitt í því að stefna fram á við eftir brotthvarf Conte sem hafði stýrt liðinu í 16 mánuði. Cristian Stellini mun stýra Tottenham til loka leiktíðarinnar með aðstoð Ryan Mason.
Paratici, sem er fimmtugur, starfaði í ellefu ár hjá Juventus og þar af þrjú ár sem yfirmaður knattspyrnumála á árunum 2018-2021, áður en hann kom til Tottenham.
Paratici og Juventus hafa áfrýjað úrskurði ítalska knattspyrnusambandsins og til stendur að málið verði tekið fyrir hjá ítölsku ólympíunefndinni 19. apríl.