Veður

Stefnir í storm á Snæ­fells­nesi og á Vest­fjörðum

Atli Ísleifsson skrifar
Sérstaklega er varað við hvassviðri eða stormi á Snæfellsnesi og Vestfjörðum í nótt og á morgun með hviðum um 35 metrum á sekúndu í vindstrengjum við fjöll.
Sérstaklega er varað við hvassviðri eða stormi á Snæfellsnesi og Vestfjörðum í nótt og á morgun með hviðum um 35 metrum á sekúndu í vindstrengjum við fjöll. Vísir/RAX

Landsmenn mega búa sig undir að það bæti hægt í vind í dag og verði sunnan átta til þrettán metrar á sekúndu um hádegi og fimmtán til 23 metrar á sekúndu um miðnætti. Hvassast verður í vindstrengjum á norðanverðu Snæfellsnesi og á Vestfjörðum.

Á vef Veðurstofunnar segir að það verði rigning eða súld með köflum en hægari og úrkomulítið um austanvert landið. Það hlýni heldur í veðri og hiti tvö til átta stig síðdegis.

Sérstaklega er varað við hvassviðri eða stormi á Snæfellsnesi og Vestfjörðum í nótt og á morgun með hviðum um 35 metrum á sekúndu í vindstrengjum við fjöll sem getur verið varasamt fyrir ökutæki sem eru viðkvæm fyrir vindi.

„Áfram allhvöss eða hvöss sunnanátt á morgun með vætu sunnan- og vestantil en yfirleitt þurrt um landið norðaustanvert. Hiti breytist lítið. Raunar er útlit fyrir að hlýar, miðað við árstíma, suðlægar áttir verði ríkjandi næstu daga með hita oft á bilinu 2 til 7 stig,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar.

Spákort fyrir klukkan 16 í dag.Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á laugardag: Suðlæg átt 13-20 m/s, hvassast um norðvestanvert landið og hægari vindur austantil. Víða rigning en þurrt norðan- og austanlands. Hiti 3 til 9 stig.

Á sunnudag og mánudag: Suðlæg átt, víða 10-15 m/s, og væta með köflum en lengst af þurrt og bjart á Norður- og Austurlandi. Hiti 3 til 8 stig.

Á þriðjudag og miðvikudag: Fremur hæg suðlæg átt og víða rigning eða súld en bjart með köflum norðaustantil á landinu. Hiti 2 til 7 stig.

Á fimmtudag: Útlit fyirr hæga suðlæga átt. Víða skýjað og lítilsháttar væta og hiti 3 til 7 stig, en bjartviðri norðaustantil á landinu og hiti nærri frostmarki.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×