Í hugleiðingum veðurfræðings segir að þetta tíðindaleysi muni þó ekki endast lengi því strax í kvöld hvessi syðst á landinu með slyddu eða snjókomu og hlýni hægt og rólega.
„Á morgun stefnir í allhvassa suðlæga átt með rigningu víða, en slyddu eða snjókomu norðaustantil í fyrstu. Annað kvöld bætir síðan frekar í vind á norðanverðu landinu og mögulegt að vindurinn fari í stormstyrk.
Á laugardag spáir sunnan hvassviðri eða stormi með talsverðri rigningu, en úrkomuminna norðaustanlands. Það snýst síðan í hvassa suðvestanátt með éljum þegar líður á daginn. Það er því vert að fylgjast með spám fyrir laugardaginn ef fólk ætlar að vera á faraldsfæti,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á föstudag: Sunnan og suðvestan 10-18 m/s, hvassast vestantil á landinu. Víða rigning, en slydda eða snjókoma fram eftir morgni á Norður- og Austurlandi. Hlýnandi, hiti 1 til 6 stig síðdegis. Bætir í vind norðantil um kvöldið.
Á laugardag: Sunnan 15-23 m/s og talsverð rigning, en úrkomuminna norðaustanlands. Hiti 4 til 9 stig. Snýst í hvassa vestlæga átt með éljum og kólnandi veðri seinni partinn.
Á sunnudag: Fremur hæg suðlæg átt og él vestanlands, annars þurrt. Hiti kringum frostmark. Vaxandi suðaustanátt með slyddu eða rigningu sunnantil um kvöldið og hlýnar.
Á mánudag: Stíf sunnanátt með rigningu og hlýindum, en úrkomulítið norðaustantil á landinu.
Á þriðjudag: Snýst í suðvestanátt með skúrum og síðar éljum sunnan- og vestanlands, en þurrt um landið norðaustanvert. Kólnandi.
Á miðvikudag: Útlit fyrir suðvestanátt og él, en þurrt norðaustantil. Hiti um frostmark.