Veður

Út­lit fyrir skap­legt verður eftir há­degi en hvessir í kvöld

Atli Ísleifsson skrifar
Hiti verður um eða undir frostmarki.
Hiti verður um eða undir frostmarki. Vísir/Vilhelm

Veðurstofan gerir ráð fyrir að það dragi úr vindi og úrkomu með morgninum og að útlit sé fyrir skaplegasta veður á landinu um og eftir hádegi. Vindur verði ekki nema suðvestan fimm til þrettán metrar á sekúndu seinni partinn, þurrt um allt land og hiti um eða undir frostmarki.

Í hugleiðingum veðurfræðings segir að þetta tíðindaleysi muni þó ekki endast lengi því strax í kvöld hvessi syðst á landinu með slyddu eða snjókomu og hlýni hægt og rólega.

„Á morgun stefnir í allhvassa suðlæga átt með rigningu víða, en slyddu eða snjókomu norðaustantil í fyrstu. Annað kvöld bætir síðan frekar í vind á norðanverðu landinu og mögulegt að vindurinn fari í stormstyrk.

Á laugardag spáir sunnan hvassviðri eða stormi með talsverðri rigningu, en úrkomuminna norðaustanlands. Það snýst síðan í hvassa suðvestanátt með éljum þegar líður á daginn. Það er því vert að fylgjast með spám fyrir laugardaginn ef fólk ætlar að vera á faraldsfæti,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Spákort fyrir klukkan 14.Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á föstudag: Sunnan og suðvestan 10-18 m/s, hvassast vestantil á landinu. Víða rigning, en slydda eða snjókoma fram eftir morgni á Norður- og Austurlandi. Hlýnandi, hiti 1 til 6 stig síðdegis. Bætir í vind norðantil um kvöldið.

Á laugardag: Sunnan 15-23 m/s og talsverð rigning, en úrkomuminna norðaustanlands. Hiti 4 til 9 stig. Snýst í hvassa vestlæga átt með éljum og kólnandi veðri seinni partinn.

Á sunnudag: Fremur hæg suðlæg átt og él vestanlands, annars þurrt. Hiti kringum frostmark. Vaxandi suðaustanátt með slyddu eða rigningu sunnantil um kvöldið og hlýnar.

Á mánudag: Stíf sunnanátt með rigningu og hlýindum, en úrkomulítið norðaustantil á landinu.

Á þriðjudag: Snýst í suðvestanátt með skúrum og síðar éljum sunnan- og vestanlands, en þurrt um landið norðaustanvert. Kólnandi.

Á miðvikudag: Útlit fyrir suðvestanátt og él, en þurrt norðaustantil. Hiti um frostmark.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×