Enski boltinn

Zinchenko: Nú hlær enginn lengur að titildraumum Arsenal

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Oleksandr Zinchenko fagnar sigurmarki Eddie Nketiah í sigri Arsenal á Manchester United um síðustu helgi.
Oleksandr Zinchenko fagnar sigurmarki Eddie Nketiah í sigri Arsenal á Manchester United um síðustu helgi. Getty/Stuart MacFarlane

Oleksandr Zinchenko þekkir það vel að verða enskur meistari en hann kom til Arsenal í sumar eftir að hafa unnið enska titilinn fjórum sinnum á síðustu fimm árum með Manchester City.

Arsenal sýndi mikinn styrk með því að vinna 3-2 sigur á Manchester United um helgina og ná aftur fimm stiga forskot á Manchester City. Arsenal á líka leik inni á City en liðin eiga samt eftir að mætast tvisvar sinnum þar sem fyrri leik liðanna var frestað.

Zinchenko hefur komið mjög sterkur inn í lið Arsenal, yfirvegaður í öftustu línu og býður upp á marga möguleika í sóknarleiknum. Hann kom með sigurhugfarið frá Manchester City.

„Ef ég segi alveg eins og er þá sá ég strax hæfileikana í liðinu þegar ég mætti á svæðið. Ég þekkti Arsenal liðið en þarna áttaði ég mig á því að við höfðum allt til alls til afreka stóra hluti,“ sagði Oleksandr Zinchenko í viðtali við sjónvarpsstöð ensku úrvalsdeildarinnar.

„Ég byrjaði að tala í búningsklefanum. Ég sagði við þá: Strákar, gleymum því að stefna á topp þrjú. Við eigum að stefna á titilinn. Sumir þeirra fóru að hlæja en enginn þeirra hlær núna og við leyfum okkur að dreyma,“ sagði Zinchenko.

„Það er auðvitað enn mikið af leikjum eftir og við sjáum núna að Manchester United er komið til baka. City er þarna líka eins og alltaf. Við skulum sjá til hvað gerist en við þurfum að passa að taka áfram eitt skref í einu,“ sagði Zinchenko.

Arsenal hefur ekki orðið enskur meistari síðan liðið tapaði ekki leik tímabilið 2003-04.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.