Íslenski boltinn

Kjartan Henry í þann mund að semja við FH

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Kjartan Henry Finnbogason í leik með KR gegn Leikni Reykjavík.
Kjartan Henry Finnbogason í leik með KR gegn Leikni Reykjavík. Vísir/Hulda Margrét

Samkvæmt heimildum hlaðvarpsins Dr. Football mun FH tilkynna að framherjinn Kjartan Henry Finnbogason sé genginn í raðir félagsins og muni spila með því í Bestu deild karla í fótbolta næsta sumar.

Hinn 36 ára gamli Kjartan Henry er uppalinn KR-ingur og hefur aldrei spilað fyrir annað lið hér á landi. Eftir að í ljós kom að stjórn KR hefði nýtt sér klásúlu til að segja upp samningi leikmannsins, einu ári fyrir lok samningstímann, brást Kjartan Henry við með því að setja inn færslu á Twitter-síðu sína.

Í kjölfarið mætti Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, í viðtal á Stöð 2 Sport þar sem hann sagði að til hefði staðið að semja við Kjartan Henry að nýju en á breyttum forsendum. Hann sagði jafnframt að Kjartan hefði „ekki hagað sér almennilega í nokkur skipti og gagnrýnt liðsfélaga, þjálfara og stjórn á opinberum vettvangi,“ og að slíkt kynni Rúnar ekki að meta.

Þegar knattspyrnutímabilinu 2022 var lauk var Kjartan Henry samningslaus en í nóvember gaf stjórn knattspyrnudeildar KR út einskonar kveðjubréf þar sem framherjanum var þakkað fyrir hans framlag og honum óskað velfarnaðar. Þar kom fram að Kjartan Henry hafi „aldrei nokkurn tímann gerst brotlegur við reglur félagsins eða viðhaft einhvers konar háttsemi sem felur í sér agabrot af einhverju tagi.“

Svo virðist sem Kjartan Henry verði áfram í Bestu deildinni næsta sumar en samkvæmt hlaðvarpinu Dr. Football hefur hann fundið sér nýtt lið. Hann verður á morgun tilkynntur sem nýr leikmaður FH en liðið rétt hélt sæti sínu í deildinni síðasta sumar. Síðan þá hefur liðið sótt markvörðurinn Sindra Kristinn Ólafsson og miðvörðinn Dani Hatakka til Keflavíkur.

FH hefur leik í Bestu deild karla 2023 þann 10. apríl næstkomandi þegar liðið heimsækir Fram í Úlfársdal.


Tengdar fréttir

Utan vallar: Hvað er í gangi hjá KR?

Sumarið hjá meistaraflokkum KR í knattspyrnu hefur ekki verið upp á marga fiska. Mikið gekk á hjá kvennaliði félagsins sem endaði í neðsta sæti Bestu deildar og leikur því í Lengjudeildinni að ári. Hjá körlunum hefur einnig mikið gengið á en liðið getur þó endað í fjórða sæti þrátt fyrir að lykilmenn hafi misst mikið úr vegna meiðsla. Framkoma félagsins í garð Kjartans Henry Finnbogasonar hefur hins vegar vakið upp hörð viðbrögð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×