Enski boltinn

Ræddi við van Dijk og fer í læknisskoðun í dag

Valur Páll Eiríksson skrifar
Gakpo fór mikinn með Hollendingum á HM.
Gakpo fór mikinn með Hollendingum á HM. Catherine Ivill/Getty Images

Fátt virðist geta komið í veg fyrir kaup Liverpool á hollensku HM-stjörnunni Cody Gakpo frá PSV Eindhoven. Hann mun gangast undir læknisskoðun í Liverpool-borg í dag.

PSV staðfesti á samfélagsmiðlum í gær að félagið hefði samþykkt tilboð frá Liverpool í kantmanninn unga. Breskir miðlar greina frá því í morgun að Gakpo sé á leið til Englands og muni gangast undir læknisskoðun í dag.

Hann hafi þá rætt við félaga sinn í hollenska landsliðinu, Virgil van Dijk, eftir að Liverpool lagði fram tilboð. Sá hafi hjálpað til við að sannfæra Gakpo um skiptin til enska liðsins.

Fastlega var búist við að Gakpo færi til erkifjenda Liverpool í Manchester United, hvar landi hans, Erik ten Hag er við stjórnvölin. Púllarar virðast hafa verið sneggri til og ganga að líkindum frá skiptunum fyrir nýja árið.

Gakpo var markahæsti leikmaður PSV á síðustu leiktíð er hann skoraði tólf deildarmörk og lagði upp þréttan. PSV lenti í öðru sæti hollensku deildarinnar í fyrra, á eftir meisturum Ajax, sem ten Hag stýrði til hollenska meistaratitilsins.

Hann hefur gert enn betur á yfirstandandi leiktíð þar sem hann hefur skorað níu mörk og lagt upp tólf í aðeins 14 deildarleikjum. Hann skoraði þá í öllum þremur leikjum Hollands í riðlakeppninni á HM í Katar en hollenska liðið féll úr keppni fyrir heimsmeisturum Argentínu í 8-liða úrslitum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×