Erlent

Formaður Þjóðarflokksins sýknaður

Kjartan Kjartansson skrifar
Morten Messerschmidt með spúsu sinni þegar málið gegn honum var tekið fyrir í Frederiksberg í síðasta mánuði.
Morten Messerschmidt með spúsu sinni þegar málið gegn honum var tekið fyrir í Frederiksberg í síðasta mánuði. Vísir/EPA

Dómstóll í Danmörku sýknaði Morten Messerschmidt, formann Þjóðarflokksins, af ákæru um misferli með fjármuni Evrópusambandsins í dag. Upphaflega var Messerschmidt sakfelldur en sá dómur var ógiltur og málið tekið fyrir aftur.

Evrópuskrifstofan um aðgerðir gegn svikum, eftirlitsstofnun fyrir fjárveitingar Evrópusambandsins, komst að þeirri niðurstöðu að Þjóðarflokkurinn og ítalskir og grískir flokkar í svonefndum MELD-þingflokki þjóðernisíhaldsmanna á Evrópuþinginu hefðu misnotað fjármuni sem þeir fengu frá sambandinu árið 2019. Danskir fjölmiðlar sögðu fyrst frá meintum brotum Þjóðarflokksins þremur árum fyrr.

Messerschmidt var sakfelldur og dæmdur í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir skjalafals og misferli með ESB-fé í fyrra. Hann var forseti MELD-þingflokksins frá 2014 til 2015. Honum var gefið að sök að hafa notað hundrað þúsund danskar krónur sem áttu að fara í kynningu á ESB í sumarfagnað fyrir Þjóðarflokkinn árið 2015.

Sá dómur var ógiltur vegna hagsmunaáreksturs dómara. Ákveðið var að málið skyldi tekið fyrir aftur. Messerschmidt var sýknaður þar sem dómurinn taldi að ekki væri hægt að útiloka að flokkurinn hafi einnig haldið ráðstefnu um ESB í tengslum við sumarfagnaðinn, að sögn danska ríkisútvarpsins.

Byggði það meðal annars á upptöku þar sem Messerschmidt heyrðist ræða um skipulagningu sumarfundarins og vísa til þess að hafa tekið þátt í ráðstefnu á vegum Evrópuþingflokksins.

Messerschmidt, sem nú er formaður Þjóðarflokksins, sagði blaðamönnum að hann væri feginn að vera laus við mál sem hafi varpað skugga á hann og flokkinn í sjö ár.

Saksóknarar hafa ekki ákveðið hvort að dómnum verði áfrýjað til hæstaréttar. Fyrrverandi starfsmaður Messerschmidt hjá Evrópuþingflokknum var einnig sýknaður af ákæru um skjalafals í málinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×