Erlent

Varaformaður Þjóðarflokksins dæmdur fyrir misferli

Kjartan Kjartansson skrifar
Morten Messerschmidt heldur fast við sakleysi sitt.
Morten Messerschmidt heldur fast við sakleysi sitt. Vísir/EPA

Morten Messerschmidt, varaformaður danska Þjóðarflokksins, hlaut sex mánaða skilorðsbundinn fangelsisdóm fyrir skjalafals og misferli með fjármuni Evrópusambandsins í dag. Hann segist ætla að sitja sem fastast á þingi þrátt fyrir dóminn.

Svikin áttu sér stað þegar Messerschmidt var forseti MELD-þingflokksins á Evrópuþinginu frá 2014-2015.  Þingflokkurinn fékk styrk frá Evrópusambandinu upp á um það bil 100.000 danskar krónur, jafnvirði tæpra tveggja milljóna íslenskra króna, á þeim forsendum að féð yrði notað í kynningarherferð um sambandið. 

Á endanum var styrkurinn hins vegar notaður til þess að greiða fyrir sumarfagnað Þjóðarflokksins árið 2015. Eftirlitsnefnd framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins taldi að misfarið hefði verið með féð og hóf danska lögreglan rannsókn árið 2019, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Það taldi dómstóllinn sem dæmdi Messerschmidt sekan í dag ekki teljast sem Evrópusambandsráðstefnu, að því er segir í frétt danska ríkisútvarpsins DR.

Messerschmidt hefur þegar áfrýjað dómnum en hann hefur alla tíð neitað sök. Hann segist ætla að halda áfram á þingi og sem varaformaður Þjóðarflokksins þrátt fyrir dóminn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×