Veður

Ekkert lát á norð­austan­áttinni og við­varanir í gildi

Atli Ísleifsson skrifar
Staðan á landinu um klukkan 13 í dag samkvæmt spá Veðurstofunnar.
Staðan á landinu um klukkan 13 í dag samkvæmt spá Veðurstofunnar. Veðurstofan

Ekkert lát er á norðaustanáttinni í dag og má reikna með hvassviðri eða stormi með snjókomu eða éljum norðan- og austantil á landinu og víða skafrenningi.

Á vef Veðurstofunnar segir að frost verði á bilinu núll til sjö stig.

Viðvaranir eru í gildi á landinu vegna hvassviðrisins fram á kvöld en til morguns á Suðausturlandi.

„Hægt minnkandi norðaustanátt á morgun, strekkings vindur seinnipartinn. Él norðan- og austanlands, svipað frost áfram.

Hægari norðaustlæg átt á fimmtudag og él norðan heiða, en léttskýjað á Suður- og Vesturlandi. Harðnandi frost.“

Viðvaranir eru í gildi á landinu vegna hvassviðrisins fram á kvöld en til morguns á Suðausturlandi.Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á miðvikudag (vetrarsólstöður): Norðaustan 13-20 m/s, en dregur smám saman úr vindi með deginum. Víða él, en bjartviðri suðvestanlands. Frost 0 til 8 stig.

Á fimmtudag: Norðaustan og norðan 5-13 og dálítil él, en léttskýjað á Suður- og Vesturlandi. Frost 4 til 14 stig.

Á föstudag (Þorláksmessa): Norðanátt og dálítil él norðantil, en bjart með köflum sunnan heiða. Talsvert frost.

Á laugardag (aðfangadagur jóla): Norðlæg eða breytileg átt og snjókoma með köflum, en þurrt um landið austanvert. Áfram kalt í veðri.

Á sunnudag (jóladagur) og mánudag (annar í jólum): Útlit fyrir norðanátt með éljum norðan- og austantil á landinu.


Tengdar fréttir

Enn miklar raskanir á flugi til og frá landinu

Miklar raskanir eru enn á flugi til og frá landinu. Nú þegar hefur þrjátíu og sex komum flugvéla hingað til lands verið aflýst en aðrar eru enn áætlaðar þrátt fyrir seinkanir.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×