Gabriel, varnarmaður Arsenal, var sagður reiður yfir einhverju sem Henderson sagði og voru jafnvel leiddar að því líkur að fyrirliði Liverpool hefði látið rasísk ummæli falla.
Rifrildi þeirra átti sér stað rétt eftir að dómarinn Michael Oliver hafði dæmt vítaspyrnuna sem Bukayo Saka skoraði úr og tryggði Arsenal 3-2 sigur í leiknum.
Í rannsókn enska knattspyrnusambandsins var rætt við sex aðra leikmenn sem voru nærri Gabriel og Henderson, og varð niðurstaðan sú að engin orð hefðu fallið sem væru refsiverð.
„Enska knattspyrnusambandinu barst kvörtun vegna atviks hjá tveimur leikmönnum í þessum leik. Sambandið réðist því í gagngera rannsókn. Í rannsókninni var meðal annars fenginn vitnisburður þess sem kvartaði og þess sem ásakaður var, sem og frá sex leikmönnum sem voru nærri atvikinu. Þá voru myndbönd frá mismunandi sjónarhornum skoðuð og leitað til óháðra sérfræðinga í málvísindum,“ segir í yfirlýsingu enska sambandsins.
„Ekkert af vitnunum heyrði þau ummæli sem ásökunin byggði á, og hinn ásakaði neitaði allan tímann staðfastlega að þau hefðu fallið,“ segir í yfirlýsingunni. Sambandið telur ásakanirnar hafa verið settar fram í góðri trú en telur jafnframt að þær hafi reynst ástæðulausar.