Enski boltinn

Umdeilt mark Zouma í sigri West Ham

Valur Páll Eiríksson skrifar
Zouma fagnar sigurmarkinu og aftan í honum hangir Thilo Kehrer sem fékk boltann í höndina í aðdraganda marksins. Í bakgrunni sjást Bournemouth menn biðja um að dæmd sé hendi, árangurslaust.
Zouma fagnar sigurmarkinu og aftan í honum hangir Thilo Kehrer sem fékk boltann í höndina í aðdraganda marksins. Í bakgrunni sjást Bournemouth menn biðja um að dæmd sé hendi, árangurslaust. Chloe Knott - Danehouse/Getty Images

West Ham United vann 2-0 heimasigur á Bournemouth í eina leik kvöldsins í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta. West Ham fjarlægist botnsvæðið með sigrinum.

West Ham var fyrir leik kvöldsins í neðsta örugga sæti deildarinnar með 11 stig, tveimur stigum frá fallsvæðinu. Liðið tapaði 1-0 fyrir Liverpool í miðri síðustu viku og þurfti að sigri að halda til að fjarlægjast neðstu liðin.

Hamrarnir voru sterkari aðilinn í leiknum nánast frá upphafi til enda en eina mark leiksins kom undir lok fyrri hálfleiks. Jarrod Bowen átti þá hornspyrnu frá hægri sem fann þýska varnarmanninn Thilo Kehrer hann virtist handleika knöttinn, óviljandi þó, áður en boltinn hrökk til Tomas Soucek sem skallaði hann á Kurt Zouma sem kom boltanum í netið af stuttu færi.

Markið var þó ekki endurskoðað af myndbandsdómurum og fékk að standa.

Bournemouth fékk hins vegar dæmda á sig hendi í uppbótartíma síðari hálfleiks þegar Jordan Zemura handlék knöttinn innan teigs og vítaspyrna dæmd.

Alsíringurinn Said Benrahma steig á punktinn og innsiglaði 2-0 sigur West Ham.

Liðið tekur stórt stökk upp töfluna, úr 17. sæti í það tíunda, þar sem West Ham er með 14 stig. Bournemouth er með stigi minna, 13 stig, í 14. sæti.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.