Enski boltinn

Ten Hag með skýra kröfu gagnvart Ronaldo

Sindri Sverrisson skrifar
Cristiano Ronaldo hefur engan áhuga á því að vera varamaður.
Cristiano Ronaldo hefur engan áhuga á því að vera varamaður. Getty/Alex Pantling

Erik ten Hag og Cristiano Ronaldo munu funda í þessari viku eftir að knattspyrnustjórinn setti Ronaldo í bann frá æfingum aðalliðs Manchester United vegna hegðunar hans þegar United mætti Tottenham í síðustu viku.

Þetta segir The Athletic sem fjallar í dag um stöðu Ronaldo hjá United og segir að krafa Ten Hag sé skýr. Hollendingurinn vilji hafa Ronaldo í leikmannahópi United en hinn 37 ára gamli Ronaldo verði þá að samþykkja það að hann sé ekki byrjunarliðsmaður í hverri viku.

Ten Hag setti Ronaldo í bann frá æfingum með aðalliði United eftir 2-0 sigurinn gegn Tottenham síðasta miðvikudag. Ronaldo hafði þá neitað að koma inn á í leiknum og strunsað í burtu áður en leiknum lauk.

The Athletic segir að ef að Ronaldo sé ekki til í hið „nýja hlutverk“ og vilji fara þá muni Ten Hag gefa leyfi fyrir því. 

Hins vegar gekk það ekki upp síðasta sumar að finna félag sem vildi kaupa Ronaldo. Þá vildi United fá ákveðna upphæð fyrir leikmanninn en samkvæmt The Athletic er félagið tilbúið að láta Ronaldo fara frítt í janúar, þó að samningur hans við félagið gildi til næsta sumars.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.