Enski boltinn

Ten Hag staðfestir að Ronaldo vildi ekki koma inn á

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Cristiano Ronaldo kom ekkert við sögu þegar Manchester United vann Tottenham á miðvikudaginn.
Cristiano Ronaldo kom ekkert við sögu þegar Manchester United vann Tottenham á miðvikudaginn. getty/Tom Purslow

Cristiano Ronaldo neitaði að koma inn á sem varamaður í leik Manchester United og Tottenham í ensku úrvalsdeildinni. Erik ten Hag, knattspyrnustjóri United, staðfesti þetta á blaðamannafundi í dag.

Ronaldo var ónotaður varamaður í 2-0 sigri United á Spurs og strunsaði til búningsherbergja áður en leiknum lauk. Fljótlega bárust fréttir af því að Ronaldo hefði neitað að koma inn á í leiknum og það reyndist rétt.

„Já, Cristiano Ronaldo neitaði að koma inn á gegn Tottenham,“ sagði Ten Hag á blaðamannafundi í morgun.

„Það verða að vera afleiðingar af þessu. Það er mikilvægt fyrir viðhorfið og hugarfarið í liðinu,“ bætti Hollendingurinn við.

Ten Hag hefur svo sannarlega brugðist við því Ronaldo var tekinn út úr leikmannahópi United og verður ekki með í leiknum gegn Chelsea á morgun.

Ronaldo birti færslu á Instagram í gær þar sem hann baðst afsökunar á uppákomunni í leiknum gegn Tottenham. Hann segir að kappið hafi borið fegurðina ofurliði á þessari stundu.

„Í þeim liðum sem ég hef verið í hef ég alltaf reynt að sýna gott fordæmi fyrir yngri leikmenn. Það er ekki alltaf hægt. Stundum missirðu þig í hita augnabliksins,“ skrifaði Ronaldo og bætti við að hann ætlaði að leggja hart að sér á æfingum og vera tilbúinn að spila þegar kallið kæmi.

Ronaldo fór ekkert leynt með að hann vildi komast frá United í sumar en áhuginn frá stærstu félögum Evrópu var lítill og hann hefur ekki aukist á undanförnum vikum.

Portúgalinn sneri aftur til United í fyrra og skoraði 24 mörk í öllum keppnum á síðasta tímabili. Í vetur hefur hann aðeins gert tvö mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×