Enski boltinn

Fengu „viðbjóðsleg“ skilaboð eftir átökin og kjaftshöggið

Sindri Sverrisson skrifar
Hawa Cissoko fékk að líta rauða spjaldið. Eins og sjá má var Dagný Brynjarsdóttir ein af þeim sem reyndu að stilla til friðar.
Hawa Cissoko fékk að líta rauða spjaldið. Eins og sjá má var Dagný Brynjarsdóttir ein af þeim sem reyndu að stilla til friðar. Getty/Harriet Lander

Hawa Cissoko og og Sarah Mayling hafa orðið fyrir „viðbjóðslegu“ netníði eftir átök þeirra í leik West Ham og Aston Villa, að sögn Cörlu Ward, þjálfara Villa.

Cissoko, sem er liðsfélagi Dagnýjar Brynjarsdóttur hjá West Ham, fékk að líta rauða spjaldið eftir að hún kýldi Mayling í kjölfar átaka þeirra á milli. West Ham vann leikinn 2-1 og skoraði Dagný fyrsta mark leiksins.

Paul Konchesky, þjálfari West Ham, fékk einnig rautt spjald vegna hegðunar sinnar á hliðarlínunni.

Í yfirlýsingu frá West Ham segir að um leið og félagið harmi hegðun Cissoko, sem hún hafi beðist afsökunar á, þá verði að stöðva þess háttar níð sem hún varð fyrir eftir leikinn. Hluti af viðbjóðnum sem hún fékk sendan mun hafa verið kynþáttaníð.

„West Ham United er áfram óhaggað í sinni afstöðu. Við höfum enga þolinmæði fyrir hvers konar mismunun,“ segir meðal annars í yfirlýsingu West Ham.

BBC hefur eftir Ward, þjálfara Villa: „Sarah og Hawa hafa orðið fyrir viðbjóðslegu netníði en eru báðar góðar manneskjur. Það ætti enginn að þurfa að eiga við svona, sama hvað gerist á vellinum.“

Cissoko kvaðst í yfirlýsingu harma hegðun sína í lok leiksins við Villa og sagði ekkert geta afsakað það sem hún gerði, sérstaklega þar sem að hún væri fyrirmynd fyrir aðra. Þá þakkaði hún þeim sem sent höfðu henni baráttukveðjur, öfugt við þeim sem sent höfðu henni „níðandi og hatursfull skilaboð.““

„Þær [Mayling og Cissoko] áttu í átökum sem urðu í mjög spennuþrungnum og tilfinningaríkum leik,“ sagði Ward og bætti við: „Ég er viss um að þær eru báðar fullar eftirsjár en hvorug þeirra ætti að þurfa að ganga í gegnum það netníð sem þær hafa orðið fyrir.“
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.