Erlent

Senda dróna og eldflaugar til Rússa

Samúel Karl Ólason skrifar
Minnst þrír létu lífið í drónaárásum á Kænugarð í dag.
Minnst þrír létu lífið í drónaárásum á Kænugarð í dag. Getty/Almannavarnir Úkraínu

Ráðamenn í Íran hafa samþykkt að selja Rússum mikið magn eldflauga og dróna. Þau vopn munu Rússar væntanlega nota til að gera árásir á skotmörk í Úkraínu en þær árásir Rússa beinast að mestu gegn borgaralegum skotmörkum og hafa verið fordæmdar sem stríðsglæpir.

Tveir embættismenn í Íran og tveir erindrekar frá ríkinu staðfestu þetta við blaðamenn Reuters í dag. Ákvörðunin mun að öllum líkindum valda reiði í Bandaríkjunum og Evrópu. Reuters segir að samkomulag um vopnakaupin hafi náðst þann 6. október en Rússar hafi leitað til Írana eftir drónum og nákvæmum eldflaugum.

Drónarnir sem Rússar hafa notað til þessara árása kallast Shahed-136 og eru þróaðir og framleiddir í Íran.

Drónar þessir eru hannaðir til að fljúga á skotmörk eins og skrið- og bryndreka og varnarbyrgi og springa í loft upp. Drónarnir bera um 40 kílógröm af sprengiefni.

Shahed-136 drónarnir eru um 3,5 metra langir og með um 2,5 metra vænghaf. Þeir eru ekki gífurlega hraðskreiðir (hámark 180 km/klst) en geta verið lengi á lofti, sjást illa á ratsjám og er þess vegna erfitt að skjóta þá niður.

Hér má sjá stutt myndband sem sýnir hvernig drónarnir virka.

Heimildarmenn fréttaveitunnar sögðu einnig að í síðasta mánuði hefði borist beiðni frá Vladimír Pútin, forseta Rússlands, um dróna sem kallast Arash 2 en þeir eru þróaðri en Shahed-drónarnir og drífa mun lengra. Þeirri beiðni var hafnað en heimildarmenn fréttaveitunnar gátu ekki sagt af hverju.

Ráðamenn Í Bandaríkjunum, Bretlandi og í ríkjum Evrópusambandsins hafa lýst því yfir í dag að með því að útvega Rússum þessa dróna sé ríkisstjórn Írans að brjóta gegn kjarnorkusamkomulaginu svokallaða og gegn samþykktum öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.

Árásir Rússa hafa að mestu beinst að borgaralegum skotmörkum í Úkraínu og innviðum eins og orkuverum og vatnsveitum.

Annar írönsku diplómatanna sem ræddi við Reuters hafnaði því að samkomulagið við Rússa væri brot á kjarnorkusáttmálanum frá 2015 sem Íran gerði með Bandaríkjunum og fleiri stórveldum. Hann sagði það ekki vera vandamál seljandans hvar kaupandinn noti vopnin. Íranir taki ekki afstöðu í Úkraínu-stríðinu líkt og vesturveldin hafi gert.

Sjá einnig: Fordæma drónaárásir Rússa á óbreytta borgara

Eldflaugarnar sem Rússar eru að kaupa eru hannaðar til að vera skotið af skotpöllum á jörðu niðri og lenda á fyrirframákveðnum skotmörkum. Þær kallast Fateh-110 og Zofaghar og eru sagðar drífa frá þrjú hundruð kílómetra í sjö hundruð.

Fregnir hafa verið að berast af því að Rússar hafi gengið verulega á eldflaugabirgðir sínar og kaup þeirra á eldflaugum frá Íran renna stoðum undir þær fregnir. Rússar eru einnig sagðir hafa gengið á vopnabirgðir í Hvíta-Rússlandi.

Sjá einnig: Pútín segist ekki sjá eftir neinu

Heimildarmaður Reuters í Evrópu sagði vísbendingar hafa borist til Vesturlanda um að Rússar ættu í erfiðum með að framleiða vopn í nægjanlegu magni vegna viðskiptaþvingana og refsiaðgerða. Því hafi þeir leitað til bandamanna sinna eins og Írans og Norður-Kóreu.


Tengdar fréttir

Ungt par meðal látnu í Kænugarði

Að minnsta kosti þrír létu lífið og þrír særðust í drónaárásum Rússa á Kænugarð í morgun. Nítján var bjargað úr rústum íbúðabyggingar en björgunaraðgerðir standa yfir. Fleiri árásir áttu sér stað í Úkraínu í morgun en heildarfjöldi látinna liggur ekki fyrir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×