Enski boltinn

Benítez gæti verið á leið aftur í enska boltann

Sindri Sverrisson skrifar
Rafa Benítez stýrði síðast Everton en var rekinn í janúar.
Rafa Benítez stýrði síðast Everton en var rekinn í janúar. Getty/Stephen Pond

Knattspyrnustjórinn Rafa Benítez virðist vera efstur á blaði hjá forráðamönnum enska úrvalsdeildarfélagsins Nottingham Forest yfir þá sem gætu tekið við af Steve Cooper verði hann rekinn.

Ljóst er að farið er að hitna verulega undir sæti Coopers jafnvel þó að hann sé maðurinn sem að kom Forest upp í efstu deild á síðustu leiktíð, eftir 23 ára fjarveru frá úrvalsdeildinni. Miðað við fréttir enskra miðla á borð við The Guardian og The Telegraph þá bendir allt til þess að hann verði látinn fara.

Forest hefur nefnilega tapað fimm leikjum í röð og er í neðsta sæti ensku úrvalsdeildarinnar, þrátt fyrir að hafa farið mikinn á félagaskiptamarkaðnum í sumar og keypt 23 leikmenn fyrir samtals yfir 150 milljónir punda.

Evangelos Marinakis, eigandi Forest, er nú sagður áhugasamur um að ráða Benítez. Spænski stjórinn hefur verið án starfs eftir að hann var rekinn frá Everton í janúar, eftir að hafa áður stýrt liðum á borð við Liverpool, Newcastle og Real Madrid. Benítez hefur sagst áhugasamur um að snúa aftur í ensku úrvalsdeildina.

The Guardian segir að Sean Dyche, sem rekinn var frá Burnley í apríl, sé annar kostur sem að Forest íhugi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×