Erlent

Sagðist skilja áhyggjur Xi af innrásinni í Úkraínu

Samúel Karl Ólason skrifar
Xi Jinping og Vladimír Pútín, forsetar Kína og Rússlands.
Xi Jinping og Vladimír Pútín, forsetar Kína og Rússlands. AP/Alexandr Demyanchuk

Vladimír Pútín, forseti Rússlands, þakkaði Xi Jinping, forseta Kína, fyrir yfirvegaða afstöðu til innrásarinnar í Úkraínu. Pútín sagðist þó hafa skilning á spurningum og áhyggjum Xi af ástandinu í Úkraínu. Þá hét Pútín stuðningi Rússa við Kína varðandi meint yfirráð þeirra yfir Taívan.

Forsetarnir tveir hittust í Samarkand í Úsbekistan í dag á leiðtogafundi Öryggisbandalags Sjanghæ eða SCO. Að undanskildum ríkisstjórnum Rússlands og Kína eru ríkisstjórnir Indlands, Kasakstans, Kirgistans, Pakistans og Tadsíkistan í hópnum.

Þetta var fyrsti fundur Pútíns og Xi frá því innrásin í Úkraínu hófst.

Vesturlönd hafa biðlað til ráðamanna í Peking um að styðja ekki við bakið á Rússum vegna innrásarinnar og framfylgja refsiaðgerðum gegn Rússlandi vegna hennar.

Sjá einnig: Xi og Pútín funda um innrásina í Úkraínu

Pútín lét áðurnefnd ummæli um áhyggjur og spurningar Xi falla í upphafi fundar þeirra. Þar skammaðist Pútín einnig yfir Bandaríkjunum og sakaði Bandaríkjamenn um að beita „ljótum“ aðferðum við að skapa veröld þar sem þeir réðu ríkjum og sagði Pútín slíkt fyrirkomulag vera óásættanlegt fyrir meirihluta heimsins.

Xi sagði að með Rússum, væru Kínverjar tilbúnir til að setja gott fordæmi um ábyrgð heimsvelda og taka leiðandi hlutverk heimi sem breyttist hratt og leiða hann að sjálfbærri og jákvæðri þróun.


Tengdar fréttir

„Kokkur Pútíns“ býður föngum frelsi fyrir herþjónustu í Úkraínu

Myndband af rússneska auðjöfrinum Yevgeny Prigozhin bjóða föngum náðun fyrir að ganga til liðs við málaliðahópinn sem kallast Wagner Group var birt á netinu í gær. Þar má sjá auðjöfurinn segja föngunum að gangi þeir til liðs við Wagner muni þeir aldrei fara aftur í fangelsi. Annað hvort muni þeir deyja í Úkraínu eða vera lausir allra mála eftir sex mánuði.

Pútín sjái ekki bjálkann í eigin auga

Kanslari Þýskalands segir Pútín neita að átta sig á því að hann hafi gert mistök með innrásinni í Úkraínu. Hann sjái ekki bjálkann í eigin auga og hafi ekki breytt afstöðu sinni að neinu leyti.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×