Erlent

Segja Pútín hafa hafnað málamiðlun og stefnt ótrauðan á innlimun

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Samkvæmt frétt Reuters vildi Pútín ekki láta sér nægja að Úkraínu gengi ekki í NATÓ, heldur vildi hann freista þess að innlima stóra hluta landsins.
Samkvæmt frétt Reuters vildi Pútín ekki láta sér nægja að Úkraínu gengi ekki í NATÓ, heldur vildi hann freista þess að innlima stóra hluta landsins. epa/Sputnik/Gavril Grigorov

Reuters segist hafa heimildir fyrir því að Vladimir Pútín Rússlandsforseti hafi hafnað samningi sem aðalsendifullrúi hans í málefnum Úkraínu hafði náð við stjórnvöld í Kænugarði um að Úkraínumenn gengju ekki í Atlantshafsbandalagið.

Sendifulltrúanum, Dmitry Kozak, hafi þess í stað verið tjáð að Pútín hefði útvíkkað markmið sín og stefndi nú að því að innlima stór svæði í Úkraínu. Þetta er allt sagt hafa átt sér stað áður en innrásin hófst.

Vitnað er í samtöl við þrjá heimildarmenn, sem sögðu Kozak hafa talið að samningurinn gerði það að verkum að Rússar þyrftu ekki að ráðast í hernaðaraðgerðir í Úkraínu. Pútín hefur ítrekað haldið því fram að ástæða hinna sérstöku hernaðaraðgerða sé sú að NATÓ hafi verið farið að banka á dyr Úkraínu, sem ógnaði tilveru Rússlands.

Dmitry Peskov, talsmaður stjórnvalda í Moskvu, neitar því staðfastlega að nokkuð sé hæft í frétt Reuters en hann hefur ítrekað verið staðinn að því að ljúga, meðal annars um yfirvofandi innrás, sem hann sagði á sínum tíma uppspuna fjölmiðla.

Diana Magnay, fréttamaður Sky News í Moskvu, segist ekki telja líklegt að Pútín fáist til að láta af aðgerðum í Úkraínu á næstunni. 

Stjórnvöld í Rússlandi, sem hafa lítið viljað tjá sig um árangursríka gagnsókn Úkraínumanna, eru komin í nokkurn bobba en margir hermálagreinendur og bloggarar hafa gagnrýnt slakan árangur innrásarhersins og þá heyrast nú nokkuð hávær köll eftir formlegri stríðsyfirlýsingu og alsherjar herkvaðningu.

Herkvaðning yrði hins vegar óvinsæl og líkleg til að varpa óþægilegu kastljósi á mistök Rússa hingað til.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×