„Þetta er ein erfiðasta yfirlýsing sem ég hef nokkru sinni skrifað og eitthvað sem ég vonaði að ég þyrfti ekki að gera. Ég er eyðilagður yfir því að tíma mínum hjá Chelsea sé lokið,“ segir Tuchel.
Hann tók við liðinu í ársbyrjun 2021 og var fljótur að vinna stuðningsmennina á sitt band með góðum árangri.
„Þetta er félag sem lét mér líða eins og heima hjá mér, bæði út frá faglegum sjónarmiðum og persónulegum. Kærar þakkir til alls starfsfólksins, leikmanna og stuðningsmanna sem tóku mér vel alveg frá byrjun.“
„Ég var svo stoltur og ánægður þegar liðið vann Meistaradeildina og heimsmeistaratitilinn. Það mun lifa með mér að eilífu. Ég lít á það sem heiður að hafa verið hluti af sögu þessa félags og minningarnar frá síðustu 19 mánuðum eiga sérstakan stað í mínu hjarta,“ segir Tuchel.