Enski boltinn

Tuchel rekinn eftir tap gærkvöldsins

Valur Páll Eiríksson skrifar
Thomas Tuchel.
Thomas Tuchel. vísir/Getty

Thomas Tuchel hefur verið vísað úr starfi knattspyrnustjóra hjá Chelsea í kjölfar taps liðsins fyrir Dinamo Zagreb í Meistaradeild Evrópu í gærkvöld.

Chelsea tilkynnti tíðindin á heimasíðu sinni í morgun. Nýir eigendur liðsins hafa átt félagið í slétta 100 daga og hafa ákveðið að breyta til eftir strembna byrjun á tímabilinu.

Chelsea eyddi fúlgum fjár í sumar, því mesta í sögu félagsins í einum félagsskiptaglugga, og þykir árangurinn ekki sýna sig á vellinum. 260 milljónum punda var eytt í leikmannakaup, þar af 200 milljónum umfram sölur.

Chelsea hefur aðeins unnið þrjá deildarleiki af sex í vetur, alla með eins marks mun, gegn Everton, Leicester og West Ham. Félagið gerði þá jafntefli við Tottenham og tapaði fyrir Leeds United og Southampton í deildinni.

Tapið fyrir Dinamo Zagreb í Króatíu í gærkvöld virðist hafa fyllt mæli nýs eigendahóps, sem leiddur er af Todd Boehly, stjórnarformanni félagsins. Hann gekk frá kaupum á félaginu í júní.

Tuchel var ráðinn þjálfari liðsins af Roman Abramovich, þáverandi eiganda liðsins, í janúar 2021 og vann Meistaradeild Evrópu með félaginu um vorið það ár. Hann bætti við Ofurbikar Evrópu og Heimsmeistarakeppni félagsliða haustið eftir. Þá tapaði Chelsea undir hans stjórn í úrslitum FA-bikarsins í fyrra og í ár.

Í tilkynningu Chelsea segir að starfslið félagsins muni sjá um þjálfun liðsins en ekkert hefur verið gefið út um arftaka Þjóðverjans.

Tuchel þjálfaði áður Borussia Dortmund og Paris Saint-Germain með fínum árangri en hann vann franska meistaratitilinn 2019 og 2020 með síðarnefnda liðinu og kom því í úrslit meistaradeildarinnar vorið 2020.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×