Enski boltinn

Enginn skoraði fleiri mörk í fyrstu fimm leikjum sínum en Håland

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Fimm leikir, níu mörk og ein stoðsending. Geri aðrir betur.
Fimm leikir, níu mörk og ein stoðsending. Geri aðrir betur. EPA-EFE/ANDREW YATES

Erling Braut Håland skoraði þrennu í stórsigri Englandsmeistara Manchester City á nýliðum Nottingham Forest. Håland hefur nú skorað níu mörk í fyrstu fimm leikjunum sínum í deildinni en það er met.

Þegar Manchester City festi kaup á Håland í sumar var þeirri hugmynd hent fram hvort það myndi taka leikmanninn, og liðið, tíma að smella saman. Hann er jú einstakur framherji og Englandsmeistararnir léku oftar en ekki án þess að vera með hefðbundinn framherja á síðustu leiktíð.

Håland hefur heldur betur svarað því en hann hefur verið vægast sagt sjóðandi heitur í upphafi móts. Hann byrjaði tímabilið á að skora bæði mörkin í 2-0 sigri á West Ham United. Í 4-0 sigrinum gegn Bournemouth lét hann sér nægja að leggja upp eitt mark. Þá skoraði hann eitt mark í 3-3 jafnteflinu gegn Newcastle United á útivelli.

Þrjú mörk og ein stoðsending í þremur leikjum er nokkuð gott fyrir 21 árs gamlan framherja sem er að spila sína fyrstu leiki í ensku úrvalsdeildinni. Håland er hins vegar enginn venjulegur framherji.

Norðmaðurinn skoraði þrennu er Man City kom til baka eftir að lenda 0-2 undir gegn Crystal Palace um helgina og hann gerði slíkt hið sama er City rótburstaði nýliða Nottingham Forest 6-0 í kvöld.

Hann er því kominn upp í níu mörk í aðeins fimm leikjum og bætir þar með met Mick Quinn og Manchester City goðsagnarinnar Sergio Agüero sem skoruðu báðir átta mörk í fyrstu fimm leikjum sínum í deildinni.

Verði Håland áfram eitthvað í líkingu við Agüero þá munu varnarmenn deildarinnar án efa velja veikindadaga sína vandlega næstu misserin.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×