Erlent

Hafa aldrei mælt meiri hita utan eyðimerkur

Samúel Karl Ólason skrifar
Lítið vatn er í ám víða um Kína.
Lítið vatn er í ám víða um Kína. AP/Olivia Zhang

Ekki hefur rignt minna í Kína að sumri til í um sextíu ár. verksmiðjum víða um landið hefur verið gert að loka dyrum sínum samhliða því að mikið vatn vantar í vatnsból orkuvera og Kínverjar kveikja á loftkælingum sínum í massavís.

Ástandið er sérstaklega slæmt í Sichuan-héraði, þar sem um áttatíu prósent orku héraðsins kemur frá vatnsaflsvirkjunum.

Þurrkurinn hefur sömuleiðis leitt til þess að vatnsstaða Yangtze-árinnar hefur lækkað verulega og er áin um helmingi mjórri en við venjulegar aðstæður.

AP fréttaveitan segir hitann hafa farið í 45 gráður í Chongqing í gær og segja ríkismiðlar Kína það mesta hitastig sem mælst hefur í Kína frá því mælingar hófust árið 1961, að hitamælingum í eyðimörkinni í Xinjiang undanskildum.

Þessi hiti veldur því að fólk hefur haldið sig innan dyra, nærri loftkælingum. Embættismenn í Sichuan hafa þó skipað íbúum að stilla loftkælingar ekki á minna hitastig en 27 gráður til að spara orku.

Þurrkar virðast herja á jarðarbúa víða um heim þessa dagana. Meðal annars í Ameríku, Afríku og í Evrópu, þar sem ástandið þykir mjög slæmt.

Sambærilegt en þó verra ástand skapaðist í Kína í fyrra vegna þurrka í Guandgdong-héraði, sem er mjög iðnvætt og umfangsmikil framleiðsla fer þar fram, en til viðbótar við það var einnig skortur á kolum. Sérfræðingar búast ekki við að ástandið verði eins slæmt að þessu sinni.

Ráðamenn í Kína vinna þó hörðum höndum að því að blása auknu lífi í hagkerfi Kína í aðdraganda flokksþings í haust þar sem búist er við því að Xi Jinping, forseti, muni veita sjálfum sér þriðja fimm ára kjörtímabilið.

Þá hafa Kínverjar ekki náð markmiðum sínum varðandi hagvöxt. Á fyrri hluta þessa árs var hagvöxtur 2,5 prósent, samanborið við sama tíma í fyrra. Markmiðið var 5,5 prósent.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×