Erlent

Xi festir sig í sessi og setur sig á stall með Mao og Deng

Samúel Karl Ólason skrifar
Xi Jinping, forseti Kína.
Xi Jinping, forseti Kína. AP/Ju Peng

Leiðtogar Kommúnistaflokks Kína hafa samþykkt sögulega ályktun um flokkinn sem festir Xi í sessi sem einn af áhrifamestu leiðtogum Kína. Með þessu er Xi líklegur til að tryggja sér þriðja kjörtímabilið sem forseti Kína á næsta ári en það hefur enginn gert áður.

Ályktunin fjallar um það sem leiðtogar flokksins telja hann hafa áorkað á þeim hundrað árum sem liðin eru frá því flokkurinn var stofnaður. Reuters fréttaveitan vitnar í ríkismiðla Kína og segir ályktunina hafa verið samþykkta á fjögurra daga fundi um 370 leiðtoga Kommúnistaflokksins.

Þetta er í þriðja sinn sem flokkurinn festir eigin sögu í sessi með samþykkt sem þessari. Sú fyrsta var gerð á tíma Mao Zedong árið 1945 og síðari samþykktin var gerð árið 1981, þegar Deng Xiaoping fór með völd í Kína.

BBC hefur eftir sérfræðingum að ályktunin gæti verið til marks um vilja Xi til að draga úr þeirri valddreifingu sem fyrri leiðtogar Kína, þar á meðal Deng, hafa komið á. Að Kína gæti verið að færast aftur til tíma þar sem sterkir leiðtogar stjórni svo gott sem öllu.

Xi er talinn vera valdamesti leiðtogi Kína frá tímum Mao.

Um 370 leiðtogar Kommúnistaflokks Kína samþykktu ályktunina um sögu flokksins.AP/Yan Yan

Gæti verið forseti ævilangt

Xi, sem er 68 ára gamall, tók við embætti forseta Kína árið 2013. Samkvæmt stjórnarskrá Kína hefði hann átt að láta af embætti árið 2023. Árið 2018 samþykkti þing Kína að afnema ákvæðið um hve lengi forseti mætti vera við völd úr stjórnarskránni.

Við það var opnað á það að Xi sæti í embætti forseta ævilangt en ákvæðið hafði verði í gildi í áratugi.

Meðal þess sem sérfræðingar um málefni Kína sögðu við BBC var að með ályktuninni hefði Xi fest stöðu sína í sessi og að hann vilji sjálfur vera álitinn ein af helstu hetjunum í sögu Kína.

„Með því að koma í gegn sögulegri ályktun þar sem hann er í hringamiðju sögu Kommúnistaflokksins og Kína nútímans, hefur Xi sýnt fram á vald sitt. En skjalið er einnig tól sem hjálpar honum að halda völdum,“ sagði Adam Ni við BBC.


Tengdar fréttir

Lýsa hóflegri bjartsýni yfir sameiginlegri yfirlýsingu Bandaríkjanna og Kína

Loftslagsaðgerðarsinnar og leiðtogar annarra ríkja hafa tekið fregnum af sameiginlegri yfirlýsingu Bandaríkjamanna og Kínverja vel en með varfærni þó. Í gær kom óvænt yfirlýsing frá þjóðunum tveimur inn á COP26 ráðstefnuna í Glasgow þar sem þær heita því að vinna sameiginlega að því að halda hlýnun jarðar innan við 1,5 gráðu líkt og Parísarsamkomulagið gerir ráð fyrir.

ESB til Taívana: „Þið eruð ekki ein“

Fyrsta opinbera sendinefnd Evrópuþingsins til Taívan tilkynnti ráðamönnum þar að íbúar eyríkisins stæðu ekki einir gegn sífellt auknum þrýstingi frá Kína. Taívanar leita bandamanna um víða veröld.

Tennisstjarna sakar einn æðsta embættismann Kína um nauðgun

Tenniskonan Peng Shuai hefur sakað fyrrverandi aðstoðarforsætisráðherra Kína og fyrrverandi meðlim í forsætisnefnd Kommúnistaflokks Kína (Politburo) um að hafa brotið á sér kynferðislega. Maðurinn heitir Zhang Gaoli og var í Politburo frá 2012 til 2017 en ásökunin var fljótt fjarlægð af netinu.

Auka framleiðslu og brennslu kola til muna í Kína

Kolaframleiðsla í Kína hefur verið aukin til muna og stendur til að auka hana enn fremur. Verið er að stækka gamlar námur og grafa nýjar víðsvegar um landið en Kína brennir þegar meira af kolum en öll önnur ríki heimsins samanlagt.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.