Enski boltinn

Javi­er Hernandez býðst til þess að spila frítt fyrir Man Utd

Atli Arason skrifar
Javier Hernandez lék með Manchester United frá 2010 til 2015.
Javier Hernandez lék með Manchester United frá 2010 til 2015. NordicPhotos/Getty

Javier Hernandez, fyrrum framherji Manchester United og núverandi leikmaður LA Galaxy hefur boðist til þess að koma aftur til félagsins og spila fyrir það án þess að þiggja greiðslur fyrir.

Þessi 34 ára gamli Mexíkói lék með United í fimm ár og vann ensku úrvalsdeildina í tvígang með liðinu. Það var Sir Alex Ferguson sem fékk hann til félagsins á sínum tíma.

Erik ten Hag, knattspyrnustjóri Manchester United, er í leit af nýjum framherja og leitar víða. Marko Arnautovic var orðaður við félagið áður en þær áætlanir urðu af engu eftir mótmæli stuðningsmanna liðsins.

United þarf hins vegar að fara varlega með fjármagnið en ekkert félag í Evrópu hefur eytt meiri peningum í félagaskipti en enska liðið síðustu tíu leiktímabil

Hernandez hefur því boðist til að að rétta sínum fyrrum liðsfélögum hjálparhönd en hann segist tilbúinn að spila ókeypis fyrir United, ef félagið leitast eftir kröftum hans.

„Ef United myndi hafa samband við mig þá myndi ég strax segja já og spila ókeypis,“ sagði Hernandez við fjölmiðla vestanhafs en bætti þó við að hann væri með fulla einbeitingu á því að klára tímabilið vel með LA Galaxy.

Í 21 leik í bandarísku MLS deildinni á þessu ári hefur Hernandez skorað 9 mörk fyrir LA Galaxy en á sínum tíma skoraði Hernandez 59 mörk í 157 leikjum fyrir Manchester United.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×