Umfjöllun og viðtöl: Stjarnan - Breiðablik 5-2 | Fimm Stjörnu frammistaða í Garðabænum

Árni Jóhannsson skrifar
Emil Atlason var frábær í kvöld. Skoraði eitt mark og gaf tvær stoðsendingar.
Emil Atlason var frábær í kvöld. Skoraði eitt mark og gaf tvær stoðsendingar. Vísir/Hulda Margrét

Stjarnan tók Breiðabliki í kennslustund í Bestu deild karla í fótbolta í kvöld. Leikurinn endaði 5-2 fyrir heimamenn en spilað var í Garðabænum. Ég er ekki viss um að Stjörnumenn hafi spilað betur í sumar og Blikar áttu bara hreinlega engin svör.

Stjörnumenn sýndu það að þeir ætluðu að pressa Blikana og reyna að klekkja á þeim með eigin bragði. Þeir komust yfir strax eftir fjórar mínútur. Ísak Andri Sigurgeirsson hafði átt skot í varnarmann og þaðan skrúfaðist boltinn til Eggerts Arons Guðmundssonar sem var vinstra megin í teignum og lét hann skotið ríða af með vinstri fæti og söng knötturinn í fjærhorninu. 

Eftir það þá voru liðin svipað mikið með boltann og áttu sín færi og upphlaup áður en Blikar tóku völdin á vellinum. Stjarnan datt niður í skotgrafirnar og Blikar þyngdu pressuna sína. Sú pressa bar ávöxt á 31. mínútu þegar fyrirgjöf frá Viktori Karli sem fann Kristinn Steindórsson á fjærstöng sem þurfti ekki að gera neitt annað en að ýta boltanum yfir línuna. Þangað til hafði skipulag heimamanna haldið en Blikar fóru að finna pláss á hægri kanti til að gefa fyrir og skapa sér færi.

Stjörnumenn risu þá aftur upp á afturlappirnar og fóru að leika leikinn eins og þeir ætluðu sér í byrjun. Það tókst og Stjarnan komst yfir á 37. mínútu með marki frá Emil Atlasyni. 

Stjarnan komst upp úr skotgröfunum og upp vinstri vænginn. Þar var Ísak Andri á fleygiferð, fékk boltann og renndi honum fyrir markið á Emil sem kom á fleygiferð og smellhitti boltann frá vítateigslínunni. Boltinn söng í netinu en Anton hreyfði sig ekki í markinu. Hann boltann væntanlega ekki því svo fast var skotið.

Heimamenn létu kné fylgja kviði og voru búnir að tvöfalda forskot sitt fimm mínútum síðar og var markið stórkostlegt. Haraldur Björnsson sendi boltann fram og dreif inn í vítateig gestanna. Eggert Aron var þar á milli varnarmanna og markvarðar og tók hann boltann niður eins og Messi hefur gert lystilega vel hingað til. Svo lyfti hann boltanum yfir Anton Ara sem var ekki vel staðsettur. Eitt af mörkum tímabilsins og Stjörnumenn á flugi inn í hálfleik í stöðunni 3-1. Blikar rotaðir og áttu erfitt uppdráttar í leiknum.

Seinni hálfleikur byrjaði fjörlega en bæði lið áttu færi en svo datt botnin út þessu og Blikar komust hvorki lönd né strönd á móti skipulögðum varnarleik heimamanna. Heimamenn efldust eftir því sem leið á leikinn og í stað þess að sitja voru þeir farnir að spila boltanum vel á milli sín og Blikar misstu gjörsamlega þá litlu stjórn sem þeir höfðu á aðstæðum.

Emil Atlason átti mjög góða síðari hálfleik og kórónaði frammistöðu sína með tveimur stoðsendingum með skömmu millibili. Fyrst þræddi hann boltann í gegnum lappir varnarmanna Blika og fann Guðmund Baldvin Nökkvason sem var allt í einu kominn einn í gegn. Hann notaði síðan tána til að pota boltanum framhjá Antoni Ara. Stórgott mark eins og þau hafa öll verið í dag. Þetta gerðist á 72. mínútu og þremur mínútum síðar fann Emil sig með boltann á vinstri vængnum og gaf boltann fyrir. 

Þar kom Elís Rafn Björnsson aðvífandi, einn á auðum sjó, til að smella boltanum í netið og koma stöðunni í 5-1. Ef Blikar sýndust vera rotaðir fyrr í leiknum þá voru þeir steinrotaðir nú. 

Leikurinn leið en Viktor Karl Einarsson náði að klóra smá í bakkann í uppbótar tíma þannig að leikar enduðu 5-2 en frammistaða Stjörnumanna fær fimm stjörnur enda frábærir í kvöld.

Afhverju vann Stjarnan?

Stjörnumenn hafa ekki spilað betri leik í sumar segi ég og skrifa. Þeir sýndu þor í því að setja pressu á Blikana og höfðu svo gæði í framlínu sinni til að klára færin sem sköpuðust. Þá voru þeir mjög skipulagðir og agaðir í varnarleik sínum og í raun og veru náður Blikar ekki eða ógna markin að neinu ráði í dag. Þó Blikar vilji ekki meina að það sé einhver þyngsl í mannskapnum vegna leikjaálags þá voru þeir ekki góðir í dag en þeir hafa verið að eyða mikilli orku í spilamennsku sína og stundum nær það að narta í menn.

Hvað gekk illa?

Blikum gekk illa að ná upp krafti í sinn leik. Þeir hafa lent undir í sumar og þá sett hausinn undir sig til að ná í úrslitin. Í dag gekk það ekki og fundu þeir engin svör við leik heimamanna.

Bestir á vellinum?

Eggert Aron Guðmundsson er að öðrum ólöstuðum maður leiksins. Hann skoraði tvö mörk og hjálpaði sínum mönnum mikið bæði í vörn og sókn. Þá átti Emil Atlason mjög góðan leik, eitt mark og tvær stoðsendingar, og hélt varnarmönnum Blika vel við efnið. Þá verður að nefna Daníel Laxdal sem var varnartengiliður í dag og leiddi sína menn áfram í skipulögðu varnarleik.

Hvað næst?

Blikar misstíga sig í toppbaráttunni en prísa sig sæla að Víkingur gerði það líka með jafntefli fyrr í kvöld. Þessi lið mætast í næstu umferð en á milli fer Breiðablik til Istanbúl og reynir að komast áfram í Sambandsdeildinni.

Stjörnumenn halda sér í toppbaráttunni og þá sérstaklega í baráttunni um að komast í Evrópukeppni. Þeir eiga leik við Valsmenn næst og eygja von um að sauma saman tvo sigra.

Höskuldur Gunnlaugsson: „Við vorum sjálfum okkur verstir.“

Höskuldur gat ekki verið ánægður með frammistöðuna í kvöld.Vísir/Hulda Margrét

„Þetta var bara ekki okkar dagur. Lélegt“, sagði fyrirliði Breiðabliks Höskuldur Gunnlaugsson þegar hann var spurður að því hvað væri hægt að segja eftir svona niðurstöðu og frammistöðu eins og Breiðablik sýndi í kvöld.

Hann var spurður að því hvort einhver þyngsl væru í mönnum eftir erfiðan leik á fimmtudag í Sambandsdeildinni en mikil orka hefur farið í þann leik.

„Ég veit það ekki. Það má vel vera. Mér fannst þetta vera meira klaufaskapur hjá okkur frekar en að þetta væri einhver þreyta. Kannski eru þarna tengsl á milli. Við vorum sjálfum okkur verstir.“

Voru þeir kannski komnir of framarlega eftir að hafa lent snemma undir? Skipti það máli fyrir gang leiksins?

„Já klárlega. Þeir eru með röska menn frammi sem geta refsað og nýttu sín færi hrikalega vel en við áttum mjög erfitt með að brjóta þá á bak aftur. Við vorum að gera illa á síðasta þriðjung og já á okkar eigin þriðjung þannig að þetta var bara ekki okkar dagur.“

Höskuldur var spurður að því hvað Óskar Hrafn hafi sagt við sína menn í klefanum eftir leik.

„Bara áfram gakk. Þetta var bara einn leikur og við höldum áfram.“

Á næstunni er ferðalag til Istanbúl þar sem Istanbúl Basaksehir bíður þeirra en Blikar eru 3-1 undir í einvíginu. Höskuldur var spurður að því hvort þessi leikur myndi sitja í mönnum í fluginu út.

„Nei það er fínt að fá leik bara strax og í öðru umhverfi. Það er lítill sem enginn tími til að vorkenna sjálfum sér. Við ætlum okkur að stríða þeim þarna úti.“

Bein lýsing

Leikirnir


    Fleiri fréttir

    Sjá meira