Fótbolti

Eggert Aron: „Þetta sendir okkur í toppbaráttuna“

Árni Jóhansson skrifar
Eggert Aron var stórkostlegur í dag.
Eggert Aron var stórkostlegur í dag. Vísir/Hulda Margrét

Eggert Aron Guðmundsson var að öðrum ólöstuðum maður leiksins þegar Stjarnan vann Breiðablik 5-2 í 16. umferð Bestu deildar karla fyrr í kvöld. Kappinn skoraði tvö mörk og var duglegur í að hjálpa til í varnarleiknum og átti gott samspil við félaga sína.

Eggert var spurður hvort það væri ekki dásamlegt að vinna granna sína úr Kópavogi svona stórt.

„Já vá. Við byrjuðum bara strax á fyrstu mínútu og sýndum þeim að við ætluðum að pressa þá og ég held bara að þeir hafi ekki búist við því. Við sigruðumst á pressunni og skoruðum snemma og settum smá panikk í þá.“

Eftir að Stjörnumenn komust yfir í byrjun leiksins þá settust þeir aftar á völlinn og var Eggert spurður að því hvort það hafi ekki farið um þá þegar Blikarnir herjuðu á heimamenn og jöfnuðu svo metin.

„Við hættum að pressa þegar við skoruðu en það gerist stundum en Blikar eru náttúrlega með drullugott lið. Emil var svo töframaðurinn eins og hann er búinn að vera í allt sumar“, sagði Eggert og átti við að Emil Atlason kom heimamönnum aftur yfir á 37. mínútu en talandi um töfra þá skoraði Eggert Aron sitt annað mark skömmu fyrir hálfleik og var það af dýrari gerðinni. Hann var beðinn um að ræða markið.

„Ég var bara að koma úr rangstöðunni og allt í einu er boltinn langt fyrir ofan mig. Ég næ svo bara einhvernveginn að koma við hann og vippa honum síðan yfir Anton.“

Að lokum var Eggert spurður að því hvað svona sigur gerði fyrir liðið og svo hvað hann gerði fyrir sjálfstraust leikmannsins.

„Þetta sendir okkur í toppbaráttuna. Við ætlum bara að berjast í þessu til seinasta leiks. Sjálfstraustið er búið að vera fínt hjá mér en þetta gerir það ekki verra.“


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.