Íslenski boltinn

Sjáðu markasúpuna í Vesturbæ og fjögur mörk Framara

Valur Páll Eiríksson skrifar
Það var mikið svekkelsi í KR-ingum að fá á sig mark í fyrri hálfleik
Það var mikið svekkelsi í KR-ingum að fá á sig mark í fyrri hálfleik Vísir/Hulda Margrét

Tveir leikir fóru fram í Bestu deild karla í fótbolta í gærkvöld. Í þeim voru skoruð tíu mörk.

KR tók á móti Val í Vesturbæ Reykjavíkur þar sem Theódór Elmar Bjarnason kom þeim svarthvítu yfir með sínu fyrsta marki fyrir félagið snemma leiks. 1-0 stóð fram í lok fyrri hálfleiks þegar Haukur Páll Sigurðsson jafnaði með skalla eftir hornspyrnu.

Í upphafi síðari hálfleiks tók við stórskemmtun þar sem fjögur mörk voru skoruð á tíu mínútna kafla. Sigurður Bjartur Hallsson kom KR yfir með skalla eftir frábæra fyrirgjöf Halls Hallssonar áður en Hólmar Örn Eyjólfsson jafnaði með skalla eftir aukaspyrnu þremur mínútum síðar.

Ægir Jarl Jónasson kom KR aftur í forystu strax í næstu sókn en sex mínútum eftir mark hans jafnaði Patrick Pedersen fyrir Val á ný. Leiknum lauk 3-3 en mörkin má sjá í spilaranum að neðan.

Klippa: Mörkin KR-Valur

Á Akranesi tók botnlið ÍA á móti nýliðum Fram. Þar fóru þeir bláklæddu mikinn. Magnús Þórðarson skoraði annan leikinn í röð er hann kom Fram yfir á 19. mínútu og tveimur mínútum síðar tvöfaldaði Már Ægisson forystuna.

Alex Freyr Elísson gerði nánast út um leikinn strax í upphafi síðari hálfleiks með þriðja marki gestanna áður en Guðmundur Magnússon negldi síðasta naglann í kistu Skagamanna á 63. mínútu með sínu ellefta marki í sumar en hann er nú jafn Ísaki Snæ Þorvaldssyni sem markahæsti leikmaður deildarinnar.

Klippa: Mörkin ÍA-Fram

Tengdar fréttir

Umfjöllun,viðtöl og myndir: KR 3-3 Valur | Stórskemmtun í fyrsta leik Óla Jó

KR og Valur áttust við í stórveldaslag í Vesturbænum í 14. umferð Bestu-deildar karla. Eftir rólegan fyrri hálfleik sprakk leikurinn út í þeim síðari og fjögur mörk voru skoruð á tíu mínútna kafla. Bæði lið gátu verið svekkt með jafnteflið en leikar enduðu með 3-3 jafntefli, í fyrsta leik Ólafs Jóhannessonar í endurkomu sinni til Vals. 

Umfjöllun og viðtöl: ÍA 0-4 Fram | Nýliðarnir höfðu betur gegn botnliðinu

ÍA, botnlið Bestu-deildar karla í knattspyrnu, tóku á móti nýliðum deildarinnar, Fram, á Akranesi í 14. umferð deildarinnar. Nýliðarnir gerðu sér lítið fyrir og unnu stórsigur á Skipaskaga, 0-4. Magnús Þórðarson, Már Ægisson, Alex Freyr Elísson og Guðmundur Magnússon skoruðu mörkin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×