
Eftir að Boris Johnson sagði af sér sem leiðtogi Íhaldsflokksins og forsætisráðherra Bretlands í gær fer ákveðið ferli af stað innan flokksins til að velja nýjan leiðtoga. Í fyrstu umferð þurfa frambjóðendur að njóta stuðnings að minnsta kosti 5 prósenta þingmanna Íhaldsflokksins, eða átta, til að komast í næstu umferð.
Í annarri umferð þurfa frambjóðendur að njóta stuðnings að minnsta kosti 10 prósenta þingmanna, eða 36 þingmanna. Eftir það er sá frambjóðandi sem fær fæst atkvæði útilokaður þar til aðeins tveir frambjóðendur standa eftir. Þegar sú niðurstaða er komin fer fram póstkosning þar sem á bilinu eitt hundrað til tvö hundruð þúsund meðlimir í Íhaldsflokknum greiða atkvæði.

Þegar Theresa May sagði af sér í júlí 2019 tók val á nýjum leiðtoga sex vikur þar til Boris Johnson hafði sigur. Ef ákveðið verður að fara strax eftir helgi í leiðtogakjörið, gæti nýr leiðtogi verið kominn í kring um 23. ágúst. Johnson gaf hins vegar til kynna í gær að kjörið gæti dregist fram á haustið. Hann mun sitja sem starfandi forsætisráðherra þar til nýr leiðtogi hefur verið kjörinn en hefur lýst yfir að hann og ríkisstjórn hans muni ekki beita sér fyrir neinum stefnumarkandi málum.

Í könnun sem gerð var í gær og fyrradag meðal 716 meðlima Íhaldsflokksins naut Ben Wallace varnarmálaráðherra mest fylgis eða 13 prósenta. Penny Mordaunt ráðherra innanríkismála gagnvart lávarðadeildinni nýtur 12 prósenta fylgis, Rishi Sunak fyrrverandi fjármálaráðherra nýtur 10 prósenta fylgis og Liz Truss utanríkisráðherra nýtur stuðnings 8 prósenta flokksmanna samkvæmt þessari könnun.

Wallace segir Úkraínumenn ekki þurfa að hafa áhyggjur af því að Bretar styðji þá ekki áfram, en þeir hafa verið einörðustu stuðningsmenn Úkraínu allt frá upphafi innrásar Rússa ásamt Bandaríkjunum.
„Ég held að það sé engin áhætta í þeim efnum. Ég hef kappkostað að mynda samstöðu allra flokka á þingi. Við erum svo lánsöm að njóta stuðnings Skorska þjóðarflokksins, Verkamannaflokksins og Frjálslyndra demókrata við stefnu okkar gagnvart Úkraínu. Við erum sammála um að styðja Úkraínu í vörnum sínum gagnvart þessari hræðilegu innrás," segir Ben Wallace.
Tímaramminn fyrir leiðtogakjörið er ákveðinn af svo kallaðri 1922 nefnd Íhaldsflokksins sem kemur saman á mánudag þegar tveir nýir fulltrúar taka sæti í nefndinni. Hún hefur einnig völd til að breyta reglum um leiðtogakjör.