Erlent

Sam­þykktu að svipta stór­iðju fríum losunar­heimildum fyrir 2032

Kjartan Kjartansson skrifar
Álver Alcoa í Reyðarfirði er stærsti losandinn á Íslandi sem heyrir undir viðskptakerfi ESB með losunarheimildir. Öll fyrirtækin sem heyra undir það á Íslandi þurftu að kaupa sér heimildir umfram þær sem þau fengu úthlutað í fyrra.
Álver Alcoa í Reyðarfirði er stærsti losandinn á Íslandi sem heyrir undir viðskptakerfi ESB með losunarheimildir. Öll fyrirtækin sem heyra undir það á Íslandi þurftu að kaupa sér heimildir umfram þær sem þau fengu úthlutað í fyrra. Vísir/Arnar

Evrópuþingið samþykkti stórtækar breytingar á viðskiptakerfi Evrópusambandsins með losunarheimildir í dag. Stóriðjufyrirtæki hætta að fá ókeypis losunarheimildir fyrir árið 2032 en í staðinn verður tekinn upp kolefnisskattur á innflutt stál, sement og fleiri vörur.

Breytingarnar voru umdeilda. Evrópuþingið hafnaði frumvarpi um breytingar á viðskiptakerfinu (ETS) fyrr í þessum mánuði. Þingmenn voru ekki á einu máli um hversu hratt ætti að hætta að útdeilda ókeypis losunarheimildum í ljósi hækkandi orkuverðs og verðbólgu, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Með breytingunum verður þak á losunarheimildir lækkað um 4,4% frá 2024, 4,5% frá 2026 og 4,6% frá 2029. Til viðbótar verða sjötíu milljónir losunarheimilda fjarlægðar árið 2024 og fimmtíu milljónir árið 2026 til þess að draga hraðar úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Aðgerðin er liður á loftslagsmarkmiði Evrópusambandsins um 55% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda ársins 1990 fyrir árið 2030. Íslensk stjórnvöld hafa sagst ætla að taka þátt í markmiðinu en hlutdeild Íslands liggur enn ekki fyrir. Íslensk stóriðjufyrirtæki eru þátttakendur í viðskiptakerfinu með losunarheimildir.

Fyrirtæki hafa fengið úthlutað losunarheimildum endurgjaldslaust upp að einhverju marki. Hugmyndin með viðskiptakerfinu er að þeim heimildum fari fækkandi með tímanum og fyrirtækin þurfi þá annað hvort að draga úr losun sinni eða greiða síhækkandi verð fyrir heimildirnar.

Gagnrýnendur kerfisins telja að fríu losunarheimildirnar hafi grafið undan hvata fyrirtækja til þess að draga úr losun sinni.

Evrópuþingið útvatnaði aftur á móti tillögur um að losun bygginga og samgangna heyrði undir viðskiptakerfið. Aftur á móti studdi það að láta alla losun alþjóðlegra skipasiglinga til og frá aðildarríkjunum falla undir kerfið frá 2027. Framkvæmdastjórn ESB hafði lagt til að helmingur losunarinnar yrði felldur undir kerfið.


Tengdar fréttir

ESB-ríki náðu losunarmarkmiði fyrir 2020 leikandi létt

Losun Evrópusambandsríkja á gróðurhúsalofttegundum dróst saman um 34% árið 2020 miðað við árið 1990, mun meira en yfirlýst markmið þeirra um fimmtungssamdrátt á tímabilinu. Umhverfissamtök segja árangurinn aðeins sýna að markið hafi verið sett af lágt til að byrja með.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.