Erlent

Spá takmörkuðum landvinningum en síðan pattstöðu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Úkraínskur hermaður á víglínunni í Severodonetsk.
Úkraínskur hermaður á víglínunni í Severodonetsk. AP/Oleksandr Ratushniak

Samkvæmt umfjöllun New York Times telja embættismenn vestanhafs að myndin í Úkraínu sé að skýrast; Rússar muni líklega leggja undir sig meira svæða í austurhluta landsins en mæta harðri andspyrnu sífellt betur vopnaðra Úkraínumanna og ekki ná algjörum yfirráðum yfir Donbas.

Mark A. Milley, yfirmaður herforingjaráðs Bandaríkjanna, segir að ef Úkraínumenn nota vopnin frá Vesturlöndum rétt ætti það að hjálpa þeim mikið á vígvellinum. Þetta segja heimildarmenn NY Times hjá Pentagon þýða að Rússar myndu eiga í erfiðleikum með að sækja fram í Donetsk líkt og þeim hefur tekist í Luhansk.

Yfirlýst markmið Rússa er að „frelsa“ bæði héruðin, sem þeir hafa viðurkennt sem sjálfstæð ríki.

Bandaríkjamenn gera ráð fyrir að Rússar muni ná Luhansk á sitt vald á næstunni. Vopnasendingar Vesturlanda, sem ættu að fara að skila sér á vígvöllinn, muni hins vegar styrkja stöðu Úkraínuhers í Donetsk.

Frederick B. Hodges, fyrrverandi herforingi Bandaríkjahers í Evrópu, gerir ráð fyrir að stríðið muni vara einhverja mánuði í viðbót en að seint í sumar ættu Úkraínumenn að eygja möguleika á því að ná vopnum sínum og hrekja Rússa eitthvað til baka.

„Þetta er prófraun er varðar vilja og vilji Úkraínumanna er meiri,“ segir hann. „Ég sé fyrir mér að staða Úkraínu muni batna með hverri vikunni á sama tíma og það mun fjara undan stöðu Rússa. Þeir eiga enga bandamenn eða vini.“

Michael Kofman, sérfræðingur í málefnum Rússlands, segist telja báða aðila munu verða að þrotum komna eftir um tvo mánuði. Úkraínumenn skorti aðföng og vopn og Rússar séu nú þegar vanbúnir og ekki undir það búnir að eiga í átökum í lengri tíma.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.