Enski boltinn

Spáir því að Man City sé að fá tvær stór­stjörnur

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Leggið nafnið á minnið.
Leggið nafnið á minnið. Marcelo Endelli/Getty Images

Emi Martinez, markvörður Aston Villa í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta sem og Argentínu, hefur mikla trú á samlanda sínum Julián Alvarez. Sá mun ganga í raðir Englandsmeistara Manchester City.

Eftir miklar umræður síðasta vetur að Man City vantaði alvöru framherja þá mun liðið mæta til leiks með tvo nýja framherja á næstu leiktíð. Mikið hefur verið fjallað um komu Erlings Braut Håland enda er hinn 21 árs gamli Norðmaður einn mest spennandi leikmaður síðari ára.

Hinn 22 ára gamli Alvarez er enginn aukvisi heldur. Englandsmeistararnir keyptu hann í febrúar en lánuðu hann svo aftur til River Plate í Argentínu. Þar hefur Alvarez farið á kostum, hefur hann skorað 14 mörk í 18 leikjum ásamt því að leggja upp fjögur til viðbótar. 

Martinez hefur gríðarlega trú á samherja sínum og hrósaði honum í hástert nýverið.

„Við vitum allir hversu hæfileikaríkur Julián er. Hann er mjög auðmjúkur leikmaður sem fórnar sér fyrir liðið, hann hefur lagt hart að sér til að komast á þann stað sem hann er á. Hann á eftir að standa sig mjög vel í Manchester. Ég held raunar að hann verði stórstjarna.“

„Ég reyndi að fá hann til Aston Villa. Áður en við fórum á Suður-Ameríkukeppnina á síðasta ári þá sagði ég honum að koma til Villa. Það var hins vegar þá þegar ljóst að hann væri á leiðinni til City.“

„Julián mun spila vel með City. Við erum að tala um að hann er að fara vinna með einum besta þjálfara í heimi. Hann mun sýna gæði sín sem og skuldbindingu.“

Það er ljóst að Martinez hefur fulla trú á samlanda sínum sem hefur nú spilað níu A-landsleiki fyrir Argentínu. Ef allt fer að óskum verða þeir báðir í eldlínunni er Argentína hefur leik á HM í nóvember.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.