Enski boltinn

Salah og Kerr best | Son ekki í liði ársins

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Sam Kerr, besti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar 2021 til 2022.
Sam Kerr, besti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar 2021 til 2022. EPA-EFE/NEIL HALL

Leikmannasamtök Englands, PFA, völdu Mohamed Salah, leikmann Liverpool, og Sam Kerr, leikmann Chelsea, sem bestu leikmenn tímabilsins 2021/2022 á Englandi. Manchester City átti bestu ungu leikmennina og þá vakti athygli að Son Heung-Min var ekki í liði ársins.

Í gærkvöld tilkynnti PFA hvaða leikmenn hefðu verið kosnir bestir í úrvalsdeild karla og kvenna í enska fótboltanum. Einnig voru bestu ungu leikmenn deildanna tilkynntir sem og úrvalslið beggja deilda.

Mohamed Salah, framherji Liverpool og markakóngur úrvalsdeildar karla ásamt Son Heung-Min, var kosinn bestur. Hinn 29 ára gamli Egypti var að vinna verðlaunin í annað sinn.

Sam Kerr, framherji Englandsmeistara Chelsea og markadrottning úrvalsdeildar kvenna, var kosin best. Hin 28 ára gamli Ástrali var að vinna verðlaunin í fyrsta sinn.

Man City kom sá og sigraði þegar kom að bestu ungu leikmönnum deildanna. Phil Foden og Lauren Hemp hlutu þá viðurkenningu. Hinn 22 ára gamli Foden var að vinna í annað sinn á meðan hin 21 árs gamla Hemp var að vinna fjórða árið í röð. Geri aðrir betur.

Lið ársins

Það vekur mikla athygli að Liverpool á fleiri leikmenn í liði ársins en Englandsmeistarar Manchester City. Því hefur verið fleygt fram að kosningin fari venjulega fram í febrúar og því á hún til að gefa ranga mynd af tímabilinu í heild sinni.

Það sem vakti enn meiri undrun var að Suður-Kóreumaðurinn Son, markahæsti leikmaður deildarinnar, var hvergi sjáanlegur á meðan Sadio Mané og Cristiano Ronaldo voru með Salah í fremstu línu.

Það var lítið um umdeildar ákvarðanir í kvennaflokki en Englandsmeistarar Chelsea eiga fjóra leikmenn, silfurlið Arsenal þrjá sem og bronslið Man City. Hin spænska Ona Batlle, leikmaður Manchester United, er sú eina sem ekki leikur með efstu þremur liðum deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×