Enski boltinn

Chelsea varði Eng­lands­meistara­titilinn þökk sé sigri á Man United

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Leikmenn Chelsea fagna með þjálfara sínum Emmu Hayes þegar ljóst er að titillinn er í augsýn þriðja árið í röð.
Leikmenn Chelsea fagna með þjálfara sínum Emmu Hayes þegar ljóst er að titillinn er í augsýn þriðja árið í röð. Twitter@ChelseaFCW

Chelsea er Englandsmeistari kvenna í fótbolta eftir 4-2 sigur á Manchester United er lokaumferð deildarinnar fór fram. Arsenal endar stigi á eftir Chelsea eftir 2-0 útisigur á Dagný Brynjarsdóttur og stöllum hennar í West Ham United.

Það hrikti í stoðunum hjá Chelsea er liðið lenti undir gegn Man United á heimavelli í dag en gestirnir gerðu sér vonir um að ná 3. sæti deildarinnar og komast þar með í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð.

Aðeins fimm mínútum eftir að Martha Thomas kom gestunum yfir þá jafnaði Erin Cuthbert fyrir Englandsmeistarana. Ella Ann Toone kom Man Utd hins vegar yfir á nýjan leik skömmu síðar og voru gestirnir 2-1 yfir í hálfleik.

Ljóst var að spennustigið var hátt en Chelsea hafði aðeins fengið á sig tvö mörk í 10 heimaleikjum þar á undan.

Samantha Kerr sá til þess að taugar Chelsea róuðust en hún jafnaði metin á fyrstu mínútu síðari hálfleiks. Guro Reiten kom heimaliðinu svo yfir á 51. mínútu og allur vindur úr gestunum. Kerr bætti svo við öðru marki sínu á 66. mínútu og gat heimaliðið farið að undirbúa fagnaðarlætin.

Fór það svo að leiknum lauk með 4-2 sigri og Chelsea ver því Englandsmeistaratitilinn. Þeirra þriðji titill í röð.

María Þórisdóttir var í byrjunarliði Manchester United og lék allan leikinn í miðri vörn liðsins. Dagný Brynjarsdóttir var í byrjunarliði West Ham sem tók á móti Arsenal en Skytturnar þurftu að treysta á að Man Utd myndi næla í allavega stig í Lundúnum svo þær gætu hirt toppsætið.

Eftir markalausan fyrri hálfleik skoruðu Skytturnar tvívegis í síðari hálfleik, Stina Blackstenius og Stephanie Catley með mörkin. Lokatölur 2-0 gestunum í vil en þar sem Chelsea vann sinn leik þá þurfti Arsenal að láta 2. sætið duga í ár.

Dagný nældi sér í gult spjald á 54. mínútu og var tekin af velli þegar fimm mínútur lifðu leiks.

Önnur úrslit voru þau að Birmingham City vann 1-0 útisigur á nágrönnum sínum í Aston Villa. Brighton & Hove Albion og Everton gerðu 1-1 jafntefli. Manchester City vann 4-0 útisigur á Reading og þá vann Tottenham Hotspur 1-0 sigur á Leicester City.

Chelsea endaði á toppi deildarinnar með 56 stig, þar á eftir kom Arsenal með 55 og svo fer Man City í Meistaradeildina þar sem liðið endaði í 3. sæti með 47 stig. West Ham endaði í 6. sæti með 27 stig og Birmingham féll með aðeins 11 stig.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.