Enski boltinn

Man City enn undir rann­sókn: Tölvupóstar sýna fram á brot á fjárhagslegri háttvísi

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Roberto Mancini stýrði Man City frá 2009 til 2013. Hann kemur fyrir í skjölum Der Spiegel.
Roberto Mancini stýrði Man City frá 2009 til 2013. Hann kemur fyrir í skjölum Der Spiegel. Mynd/AP

Þýski fjölmiðillinn Der Spiegel segist hafa undir höndum gögn sem sýni fram á að rannsókn á enska knattspyrnufélaginu Manchester City sé enn í gangi. 

Félagið er í eigu hins moldríka Sheikh Mansour frá Sameinuðu arabísku furstadæmunum og talið er að hann hafi sett mikið fjármagn inn í félagið með ólögmætum hætti. Ekki eru margir mánuðir síðan Vísir greindi frá því að Englandsmeistarar Man City ætti í stappi við ensku úrvalsdeildina. 

Þó svo að Alþjóðaíþróttadómstóllinn hafi sýknað Man City af mögulegum brotum var rannsókn ensku úrvalsdeildarinnar hvergi nærri lokið. Der Spiegel er á sama máli og segir rannsóknina nú snúa að þremur atvikum aðallega.

  1. Pressa hefur verið sett á leikmenn undir lögaldri til að skrifa undir samninga við félagið. Fengu þeir og uppeldisfélög þeirra vel borgað við undirskriftina, eitthvað sem má ekki fyrr en leikmenn hafa náð ákveðnum aldri.
  2. Styrktaraðilar félagsins í Abu Dhabi hafa aðeins borgað brot af þeim upphæðum sem samið var um. Meirihlutinn hafi komið beint frá Sheikh Mansour sjálfum.
  3. Roberto Mancini þjálfaði liðið frá 2009 til 2013 er hann fékk sparkið. Talið er að samningur hans hafi verið borgaður upp í gegnum ýmis skúffufyrirtæki og þær upphæðir því ekki farið af reikningi félagsins.

Í grunninn má því segja að rannsóknin snúi enn að brotum Man City á fjárhagslegri háttvísi knattspyrnusambands Evrópu eða FFP reglugerðum UEFA.

Der Spiegel hefur fjölda tölvupósta og samskipta milli aðila hjá Etihad og Manchester City til að mynda. Hvorki Man City eða enska úrvalsdeildin svaraði fyrirspurnum miðilsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×