Enski boltinn

Xavi vill þrjá varnar­menn Chelsea

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Þessir þrír eru allir á óskalista Barcelona.
Þessir þrír eru allir á óskalista Barcelona. Visionhaus/Getty Images

Spænska knattspyrnufélagið Barcelona stefnir á að sækja þrjá varnarmenn Chelsea í sumar.

Mikil óvissa ríkir um framtíð nokkurra leikmanna Chelsea. Þá sérstaklega þeirra sem eru að renna út á samning en sem stendur má enska félagið ekki endursemja við leikmennina vegna viðskiptaþvinganna sem settar voru á Roman Abramovich, eiganda félagsins, eftir innrás Rússa í Úkraínu.

Abramovich er frá Rússlandi og talinn hafa grætt á vinskap sínum við forseta landsins í gegnum tíðina.

Barcelona virðist vera að ná vopnum sínum undir stjórn Xavi. Svo virðist sem þjálfarinn ætli að nýta sér stöðuna hjá Chelsea og sækja tvö varnarmenn félagsins á frjálsri sölu.

Um er að ræða hinn 29 ára gamla Antonio Rüdiger, er hann einn eftirsóttasti varnarmaður heims um þessar mundir. Hinn 25 ára gamli Andreas Christensen gæti einnig verið á leið til Katalóníu ef marka má frétt The Telegraph um málið.

Þá er hinn 32 ára gamli Spánverji Cesar Azpilicueta á óskalista Xavi en samningur hans rennur út sumarið 2023. Ef hann er að hugsa sér til hreyfings gæti Barcelona fengið hann nokkuð ódýrt þar sem Chelsea vill ekki missa hann frítt ári síðar.

Barcelona er nokkuð óvænt komið í baráttuna um 2. sæti La Liga, spænsku úrvalsdeildarinnar, eftir hörmulega byrjun á tímabilinu. Chelsea er á sama tíma í 3. sæti ensku úrvalsdeildarinnar og á litla sem enga möguleika á að ná toppliðum Manchester City og Liverpool.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×