Erlent

Pútín sagður reiður og líklegur til að stigmagna átökin

Samúel Karl Ólason skrifar
Vladimír Pútin, forseti Rússands.
Vladimír Pútin, forseti Rússands. AP/Alexei Nikolsky/Sputnik

Vladimír Pútín, leiðtogi Rússlands, er sagður vera reiður og pirraður og Bandaríkjamenn óttast að hann muni stigmagna átökin í Úkraínu vegna slæms gengis innrásar Rússa. Innrásin sem átti að taka nokkra daga hefur nú staðið yfir í tæpar þrjár vikur.

Rússneski herinn hefur beðið afhroð og hingað til mistekist að ná flestum þeim helstu markmiðum sem honum voru sett. Þrátt fyrir slæmt gengi eru yfirburðir Rússa þó enn miklir. Hersveitir Rússa sitja um nokkrar borgir Úkraínu og gera umfangsmiklar sprengjuárásir á þær með tilheyrandi eyðileggingu og mannfalli.

Talið er að herinn geti haldið þessum árásum áfram í margar vikur til viðbótar, samkvæmt frétt AP fréttaveitunnar.

Hægt er að fylgjast með nýjustu vendingum í Úkraínu í vakt Vísis.

Með full tök á Rússlandi

Forsetinn rússneski hefur á rúmum tveimur áratugum náð fullri stjórn á ríkisstjórn og öryggisstofnunum Rússlands. Hann stjórnar landinu með smáum hópi samstarfsmanna og hefur fangelsað eða myrt pólitíska andstæðinga sína, brotið niður mesta mótspyrnu og gert mótmæli ólögleg.

Hann hefur lengi verið gagnrýninn á það að Sovétríkjunum hafi verið skipt upp, haldið því fram að Úkraína væri ekki raunverulegt og réttmætt ríki og hótað kjarnorkustyrjöldum.

Vladimír Pútín hefur verið lengur við völd í Rússlandi en nokkur annar frá því Stalín var við völd. Hann hefur verið forseti Rússlands frá árinu 2000, að undanskildum árunum 2008 til 2012 þegar hann var forsætisráðherra og fyrrverandi forsætisráðherra hans varð forseti. Stjórnarskrá Rússlands gerði honum ekki kleift að sitja lengur samfleytt í embætti en í tvö kjörtímabil.

Sprengjugígur í Marípól í Úkraínu. Rússa hafa setið um borgina og gert árásir á hana en embættismenn þar segja minnst 2.500 hafa fallið.AP/Evgeniy Maloletka

Eftir 2012 var reglum landsins breytt á þann veg að lengd kjörtímabila var gerð sex ár. Núverandi kjörtímabili hans lýkur árið 2024 og hefði það átt að vera hans síðasta en breytingar voru nýverið gerðar á stjórnarskrá landsins sem gera honum kleift að bjóða sig fram aftur og sitja tvö kjörtímabil til viðbótar, eða til ársins 2036.

Hann hefur einnig unnið að breytingum sem myndu koma á fót ríkisráði sem hann gæti stýrt.

Í valdatíð sinni hefur Pútín ítrekað verið sakaður um einræðistilburði og það að grafa undan mögulegu lýðræði í Rússlandi. Kosningar hafa ekki farið fram með sanngjörnum og gagnsæjum hætti og forsetinn hefur beitt réttarkerfi Rússlands gegn pólitískum andstæðingum sínum og sjálfstæðum fjölmiðlum sem hefur verið lokað í massavís á undanförnum mánuðum og sérstaklega hratt síðan innrásin hófst.

Segir Pútín ekki líklegan til að gefa eftir

Forsvarsmenn leyniþjónustu Bandaríkjanna ræddu Pútín við ráðamenn þar í síðustu viku. Þar kom meðal annars fram að Pútín hefði búist við því að taka Kænugarð á tveimur dögum. Það hafi alls ekki gengið eftir og þúsundir rússneskra hermanna hafa fallið í innrásinni.

Þá er talið að samstaða Vesturlanda og þær gífurlega umfangsmiklu refsiaðgerðir sem Rússar hafa verið beittir, hafi sömuleiðis komið Pútín á óvart.

William Burns, yfirmaður CIA og fyrrverandi sendiherra Bandaríkjanna í Rússlandi, sagðist ekki telja Pútín við slæma geðheilsu.

„Ég held að Pútín sé reiður og pirraður,“ sagði Burns, sem hefur margoft hitt forsetann rússneska. „Líklega mun hann ekki gefa eftir heldur reyna að yfirbuga úkraínska herinn með engu tilliti til almennra borgara.“

Konu bjargað úr brennandi húsi í Kænugarði í morgunAP/Almannavarnir Úkraínu

Ráðamenn í Vesturlöndunum hafa einnig lýst yfir áhyggjum af því að Pútín gæti mögulega beitt efnavopnum gegn Úkraínumönnum. Sérstaklega er bent á að Rússar hafa verið stóryrtir um að Úkraínumenn hafi unnið að þróun efnavopna, með aðstoð Bandaríkjanna.

Eins og farið er yfir í grein BBC eru þær yfirlýsingar marklausar og Rússar hafa margsinnis í gegnum árin sakað nágranna sína og Bandaríkin um hið sama.

Frá því innrás Rússa í Úkraínu hófst hafa Rússar ítrekað verið sakaðir um stríðsglæpi.

Segja Pútín staðráðinn í að halda stríðinu áfram

Þó viðræður eigi sér stað milli ráðamanna í Úkraínu og í Rússlandi, og að þeir sem að viðræðunum koma segjast bjartsýnni en áður, gengur sérfræðingum og þeim sem að málinu koma erfiðlega að ímynda sér hvernig hægt sé að binda enda á innrásina.

Avril Haines, yfirmaður leyniþjónustumála í ríkisstjórn Joes Biden, forseta Bandaríkjanna, segir Pútín þeirrar skoðunar að hann hafi ekki efni á að tapa stríðinu. Vegna þess hve dýrkeypt stríðið er að reynast Rússum, er þó talið að það viðhorf gæti breyst.

Eins og fram kemur í grein New York Times hefur Pútín hafnað öllum tilraunum annarra þjóðarleiðtoga til að miðla málum.

Emmanuel Macron og Olaf Scholz, forseti Frakklands og kanslari Þýskalands, ræddu við Pútín í síma um helgina. Eftir það símtal sögðu franskir embættismenn að Pútín væri staðráðinn í að halda stríðinu til streitu. Scholz sagðist óánægður með skort Pútíns á einlægni.

Úkraínskur hermaður í Maríupól.AP/Mystslac Chernov

Langvarandi átök líklegust

Miðillinn hefur einnig eftir sérfræðingum beggja vegna Atlantshafsins að næstu tvær eða þrjár vikur gætu ráðið úrslitum um það hvort Úkraína verði áfram til sem ríki. Þeir hafa þá áhyggjur af því að Pútín gæti gert ástandið verra.

Meðal annars hafa ráðamenn Vesturlanda áhyggjur af því að Pútín gæti ætlað sér að ráðast inn í Moldóvu, annað ríki sem var á yfirráðasvæði Sovétríkjanna og hefur ekki gengið til liðs við Atlantshafsbandalagið. Sömuleiðis er talið að Pútín gæti beint sjónum sínum að Georgíu, sem hann háði stríð við árið 2008.

Það besta sem gæti gerst, samkvæmt vonum vestrænna ráðamanna, er að Pútín sjái af sér og komist að þeirri niðurstöðu að hann verði að semja við Vólódímír Selenskí, forseta Úkraínu. Hvað slíkt samkomulag fæli í sér og hvort það myndi yfir höfuð leiða til þess að refsiaðgerðir gegn Rússlandi yrðu felldar niður, er þó ekki ljóst.

Það sem þykir þó líklegast til að gerast í Úkraínu er að innrásin dragist á langinn og mannfall og eyðilegging aukist til muna á næstu vikum.


Tengdar fréttir

Viðræður Úkraínumann og Rússa halda áfram og Bandaríkjamenn biðla til Kínverja

Fulltrúar Úkraínu og Rússlands munu ræða saman í dag í gegnum fjarfundabúnað, segir Mykhailo Podoliak, ráðgjafi Vólódímír Selenskí, forseta Úkraínu. Talsmenn beggja þjóða hafa sagt eitthvað orðið ágengt, jafnvel þótt engar vísbendingar séu uppi um að Vladimir Pútín Rússlandsforseti sé reiðubúinn til að slá af kröfum sínum.

Uggandi yfir ná­lægð her­stöðvarinnar við NATO-ríki

Rússar skutu á herstöð í Yavoriv, vestan við borgina Lviv í vesturhluta Úkraínu í morgun. Yfir 35 létust og 134 særðust í árás Rússa en herstöðin er aðeins 25 kílómetrum frá landamærum Póllands. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×