Erlent

Selenskí sækir formlega um aðild að Evrópusambandinu

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Selenskí skrifaði undir umsóknina í dag, 
Selenskí skrifaði undir umsóknina í dag,  Mynd/Twitter

Forseti Úkraínu hefur skrifað undir formlega umsókn í Evópusambandið en hann kallaði eftir aðild í ávarpi sínu til þjóðarinnar í nótt. Friðaviðræðum Rússa og Úkraínumanna í Hvíta-Rússlandi í dag lauk án niðurstöðu. 

Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, hefur formlega óskað eftir því að Úkraína fái að ganga í Evrópusambandið en forsetinn skrifaði undir beiðni þess efnis fyrir skemmstu.

Selenskí sagði í ávarpi sínu í nótt að markmið Úkraínumanna væri að sameinast Evrópu og vera á sama stalli og önnur ríki heimsálfunnar. Hann sagðist sannfærður um að það væri sanngjarnt og í senn mögulegt.

Friðaviðræður fóru fram milli sendinefnda Rússa og Úkraínu í Hvíta-Rússlandi í dag en viðræðurnar báru lítinn árangur. Þá hefur allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna komið saman á neyðarfundi, í fyrsta sinn í 40 ár, vegna stöðunnar. 

Emmanuel Macron Frakklandsforseti ræddi við Vladímír Pútín Rússlandsforseta í dag en Macron ítrekaði kröfur alþjóðasamfélagsins um að Rússar láti af hernaðarstarfsemi í Úkraínu og að vopnahléi verði tafarlaust komið á.

Þá fór Macron sömuleiðis fram á það við Pútín að engar árásir yrðu gerðar á almenna borgara eða heimili þeirra á meðan friðaviðræðunum stendur og að allir meginvegir í Úkraínu haldist opnir og öruggir, sérstaklega vegurinn úr Kænugarði.

Pútín er sagður hafa sýnt vilja til að fallast á öll þau atriði sem Macron nefndi. Kreml segir í yfirlýsingu að samkomulag gæti náðst í viðræðunum við Úkraínu ef ákveðnum skilyrðum verður fullnægt, sem talið er ólíklegt að Úkraína fallist á. 

Fjallað er ítarlega um stöðuna milli Rússlands og Úkraínu í vaktinni hér á Vísi. 

Fréttin hefur verið uppfærð. 


Tengdar fréttir

Úkraínumenn gætu fengið dvalarleyfi innan ESB í allt að þrjú ár

Evrópusambandið stefnir á að veita úkraínskum flóttamönnum dvala- og vinnuleyfi innan sambandsins til allt að þriggja ára. Þetta hefur Reuters eftir Ylvu Johansson, innanríkismálastjóra ESB, en um 400 þúsund Úkraínumenn hafa flúið til ríkja Evrópusambandsins frá því að Rússar réðust inn í Úkraínu í síðustu viku.

Rúm­lega hálf milljón Úkraínu­manna á flótta

Sameinuðu þjóðirnar áætla nú að rúmlega hálf milljón manna hafi flúið heimili sín vegna stríðsátakanna í Úkraínu eftir innrás Rússa. Hörð átök eru enn víða í landinu, en Rússar hafa meðal annars ráðist á stórborgir á borð við Kænugarð. Kharkív og Tsjernihív.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×