Veður

Febrúar mun kaldari en undanfarin ár

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Það sem af er febrúarmánuði hefur verið mun kaldara en síðastliðin ár.
Það sem af er febrúarmánuði hefur verið mun kaldara en síðastliðin ár. Vísir/Vilhelm

Fyrstu fimmtán dagar febrúarmánaðar hafa verið mun kaldari en sömu dagar síðustu ára. Meðalhiti í Reykjavík var 1.-15. febrúar 2,1 stiga frost sem er 2,5 gráðum undir meðal lagi áranna 1991 til 2020 og 3,3 gráðum kaldara en meðallag síðustu tíu ára.

Þetta kemur fram í bloggfærslu veðurfræðingsins Trausta Jónssonar á heimasíðu hans. Þar segir hann að í Reykjavík sé hitinn á þessum fyrstu fimmtán dögum mánaðarins í næstkaldasta sæti aldarinnar, aðeins hafi verið kaldara sömu daga árið 2002 en þá var meðalhitinn 2,2 stiga frost. 

Hlýjastir hafi þessir dagar verið árið 2017 en þá var meðalhitinn 4,1 gráða. Ef litið er til mælinga frá upphafi þá voru þessir fimmtán dagar kaldastir árið 1881, meðalhiti var þá 5,9 stiga frost en hlýjastir voru þeir árið 1932, meðalhiti þá 4,5 stig. 

Á Akureyri var meðalhitinn þessa daga 4,3 stiga frost, 3,4 stigum undir meðallagi árin 1991 til 2020 og 4,4 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára. 

Á Vestfjörðum, Austfjörðum, Suðurlandi og Suðausturlandi eru dagarnir þeir köldustu á þessari öld en næstkaldastir á öðrum svæðum. Þá segir að Kaldast hafi verið í Möðrudal, þar hafi hiti verið 5,5 gráðum undir meðallagi síðustu tíu ára.

Færslan endar á því að ekki miklar breytingar á veðurlagi séu á döfinni, hiti gæti þó komist upp fyrir frostmark á hluta landsins dag og dag.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×