Enski boltinn

Kai Havertz tryggði Chelsea heimsmeistaratitilinn í framlengingu

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Kai Havertz reyndist hetja Chelsea.
Kai Havertz reyndist hetja Chelsea. Matthew Ashton - AMA/Getty Images

Kai Havertz reyndist hetja Chelsea þegar hann tryggði liðinu 2-1 sigur gegn brasilíska liðinu Palmeiras í úrslitaleik HM félagsliða af vítapunktinum í kvöld.

Enn var markalaust að fyrri hálfleik loknum, en Romelu Lukaku kom Chelsea yfir þegar síðari hálfleikur var um tíu mínútna gamall eftir stoðsendingu frá Callum Hudson-Odoi.

Brassarnir voru þó ekki lengi að jafna metin. Tæpum tíu mínútum eftir mark Lukaku fengu liðsmenn Palmeiras vítaspyrnu og Raphael Veiga skoraði af miklu öryggi fram hjá Edouard Mendy í marki Chelsea.

Þetta reyndist seinasta mark venjulegs leiktíma og því þurfti að grípa til framlengingar til að skera úr um sigurvegara.

Þegar tæpar fimm mínútur voru eftir af síðari hálfleik framlengingarinnar fékk Chelsea vítaspyrnu. Kai Havertz tók spyrnuna og kom sínum mönnum í 2-1 forystu.

Leikmenn Palmeiras þurftu svo að leika seinustu sekúndur leiksins manni færri eftir að Luan fékk að líta beint rautt spjald í uppbótartíma framlengingarinnar, en það breytti engu um úrslit leiksins.

Niðurstaðan varð því 2-1 sigur Chelsea og liðið tryggði sér þar með heimsmeistaratitil félagsliða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×