Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, á undir högg að sækja um þessar mundir vegna veisluhalda meðan harðar samkomutakmarkanir voru í gildi í Bretlandi en ITV greinir frá því í dag að svo virðist sem að Johnson hafi verið viðstaddur afmælisveislu í Downing stræti sumarið 2020.
Að því er kemur fram í frétt ITV um málið er talið að Carrie Johnson, eiginkona forsætisráðherrans, hafi skipulagt óvænta afmælisveislu um miðjan dag þann 19. júní sem að um 30 manns sóttu. Þá hafi annað teiti átt sér stað um kvöldið.
Aðeins níu dögum fyrr hafði Johnson biðlað til almennings að forðast samkomur innandyra eftir fremsta megni. Samkvæmt þáverandi reglum máttu aðeins sex manns safnast saman utandyra og tveir innandyra.
Talsmenn ríkisstjórnarinnar hafa þó alfarið neitað því að fjölmennt teiti hafi farið fram á staðnum heldur hafi aðeins nokkrir fjölskyldumeðlimir fagnað með Johnson innandyra.
Þá hafi hópur starfsmanna sem voru við störf þann dag safnast saman á skrifstofu Johnson til að óska honum til hamingju með daginn. Sjálfur hafi Johnson aðeins verið þar í um tíu mínútur.
Fyrr í mánuðinum baðst Johnson afsökunar á því að hafa sótt garðveislu í Downingstræti 19 í maí 2020 en hann hefur verið sakaður um að ljúga að breska þinginu um hvað hann vissi um samkvæmið.
Hann sagðist hafa talið að um vinnuviðburð væri að ræða og fullyrti að enginn hefði varað hann við að veisluhöldin væru brot á samkomutakmörkunum, líkt og Dominic Cummings, fyrrverandi ráðgjafi Johnson hélt fram.
Guardian greindi frá því í síðustu viku að þingmenn breska Íhaldsflokksins væru sagðir leggja drög að því að koma forsætisráðherranum frá. Framganga hans síðustu vikur og mánuði hafi grafið verulega undan trúverðugleika hans.