Enski boltinn

Lukaku búinn að segja sorrí og verður í hóp gegn Spurs

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sættir hafa náðst milli Thomasar Tuchel og Romelus Lukaku.
Sættir hafa náðst milli Thomasar Tuchel og Romelus Lukaku. getty/Robin Jones

Romelu Lukaku hefur beðist afsökunar á ummælum sínum við Sky Sports á Ítalíu og verður í leikmannahópi Chelsea gegn Tottenham í undanúrslitum deildabikarsins annað kvöld.

Belginn var ekki í leikmannahópi Chelsea þegar liðið gerði jafntefli við Liverpool, 2-2, í ensku úrvalsdeildinni í fyrradag vegna umdeilds viðtals sem hann fór í á Sky Sports á Ítalíu. Þar sagðist Lukaku ekki vera nógu ánægður hjá Chelsea og gagnrýndi Thomas Tuchel, knattspyrnustjóra liðsins.

Á blaðamannafundi í dag sagði Tuchel að þeir Lukaku hefðu fundað í gær og skilið sáttir.

„Hann baðst afsökunar og kemur aftur í hópinn fyrir æfinguna í dag,“ sagði Tuchel. „Fyrir mér var mikilvægast að skilja að þetta var ekki viljandi gert. Hann ætlaði ekki að skapa svona óróa fyrir stóran leik.“

Tuchel segir að Lukaku sé meðvitaður um vandræðin sem hann bakaði með ummælum sínum og hann ætli sér að bæta upp fyrir mistökin.

„Hann er enn okkar leikmaður og við höfum góða ástæðu til að láta hann spila fyrir okkur og sannfæra hann um að leggja sig allan fram,“ sagði Tuchel.

Chelsea keypti Lukaku frá Inter fyrir tæpar hundrað milljónir punda í sumar. Hann hefur skorað sjö mörk í átján leikjum í öllum keppnum á tímabilinu.


Carabao Cup er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Carabao Cup er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.


Tengdar fréttir

Lukaku áfram hjá Chelsea eftir sáttafund

Belgíski framherjinn Romelu Lukaku verður ekki seldur eða lánaður frá Chelsea í janúar eða næsta sumar, þrátt fyrir viðtalið við Sky á Ítalíu sem fór illa í forráðamenn enska knattspyrnufélagsins.

Svekkjandi jafntefli á Brúnni

Chelsea og Liverpool skildu jöfn eftir stórskemmtilegan leik á Stamford Bridge. Liverpool komst í 0-2 áður en leikmönnum Chelsea tókst að jafna. Lokatölur á Brúnni 2-2.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.