Enski boltinn

Lukaku gagnrýnir Tuchel og segist ætla að snúa aftur til Inter í framtíðinni

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Romelu Lukaku er ekki sáttur við leikkerfið sem Thomas Tuchel vill spila.
Romelu Lukaku er ekki sáttur við leikkerfið sem Thomas Tuchel vill spila. Sportinfoto/DeFodi Images via Getty Images

Belgíski framherjinn Romelu Lukaku hefur gagnrýnt leikskipulag Thomas Tuchel, þjálfara Chelsea. Þá segist hann ekki vera ánægður með hvernig hann skildi við Ítalíumeistara Inter og að hann muni snúa aftur til þeirra í framtíðinni.

Lukaku gekk til liðs við Chelsea á nýjan leik í sumar, en Lundúnaliðið greiddi tæpar hundrað milljónir punda fyrir þjónustu framherjans.

Lukaku hefur verið nokkuð frá vegna meiðsla á tímabilinu, en hefur þó skorað í seinustu tveim deildarleikjum sínum fyrir Chelsea sem situr í öðru sæti deildarinnar, átta stigum á eftir toppliði Manchester City.

Í samtali við Sky Sports á Ítalíu segist Lukaku ekki vera ánægður með stöðuna hjá Chelsea og gagnrýnir leikskipulag þjálfarans.

„Líkamlega er ég í góðu standi. En ég er ekki ánægður með stöðu mála hjá Chelsea,“ sagði Lukaku.

„Tuchel hefur ákveðið að breyta um leikkerfi - en ég gefst ekki upp, ég mun vera fagmannlegur. Ég er ekki ánægður með stöðuna, en ég er atvinnumaður og má ekki gefast upp núna.“

Þá opinberaði framherjinn einnig ást sína á sínu fyrrum félagi, Inter, og segist óánægður með það hvernig hann yfirgaf félagið. Hann segist einnig vita að hann muni snúa aftur einn daginn.

„Ég held að allt sem gerðist í sumar hafi ekki átt að gerast svona. Hvernig ég yfirgaf Inter, hvernig ég yfirgaf klúbbinn og hvernig ég miðlaði upplýsingum til aðdáenda. Þetta truflar mig af því að þetta var ekki rétti tíminn,“ sagði framherjinn.

„Nú er rétti tíminn til að segja hvernig mér líður. Ég hef alltaf sagt að Inter eigi stað í hjarta mínu. Ég veit að ég mun snúa aftur, ég vona það innilega.“

„Ég er ástfanginn af Ítalíu og þetta er rétti tíminn til að tala um þetta og láta fólk vita hvað gerðist í raun og veru. Ég vona innilega að ég snúi aftur til Inter. Ekki til að klára ferilinn, heldur þegar ég er enn í mínu besta formi, til að vinna fleiri titla með liðinu. Ég vil biðja stuðningsmenn Inter afsökunnar. Tímasetning orða minna var röng og það sem þið gerðuð fyrir mig mun ég muna að eilífu,“ sagði Lukaku að lokum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.