Enski boltinn

Rangnick horfir til New York í leit að að­stoðar­þjálfurum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Chris Armas virðist á leið til Manchester-borgar.
Chris Armas virðist á leið til Manchester-borgar. Hector Vivas/Getty Images

Nýráðinn þjálfari enska knattspyrnuliðsins Manchester United, Ralf Rangnick, horfir til New York í leit að aðstoðarþjálfara.

Ralf Rangnick hóf þjálfaratíð sína hjá Man United með góðum 1-0 sigri á Crystal Palace um helgina. Þó mörkin hafi látið á sér standa var hinn 63 ára gamli Þjóðverji sáttur með frammistöðu síns liðs.

Sigurinn var ef til vill merkilegri fyrir þær sakir að undanfarin tvö ár hefur Palace mætt á Old Trafford og farið með sigur af hólmi.

Þrátt fyrir sigurinn stefnir Rangnick á að bæta hóp Manchester-liðsins, það er þjálfarahóp þess. Michael Carrick – sem stýrði liðinu milli þess sem Ole Gunnar Solskjær var rekinn og Rangnick tók við – ákvað að vera ekki áfram.

Ralf Rangnick vill fá Gerhard Struber sem aðstoðarmann sinn hjá Manchester United.MLSSOCCER

Rangnick hafði þegar gefið út að hann myndi leitast eftir að ráða inn nýjan aðstoðarþjálfara og nú er þörfin enn meiri fyrst Carrick er horfinn á braut. Rangnick þekkir vel til en benti einnig á að flestir af hans fyrrum samstarfsmönnum væru starfandi hjá sumum stærstu félögum Evrópu og því erfitt að leita til þeirra.

Er það ef til vill ástæðan fyrir því að hann virðist ætla að leita út fyrir landsteinana. Samkvæmt enska götublaðinu The Sun horfir Rangnick til Gerhard Struber sem starfar í dag fyrir New York Red Bulls, systurfélags RB Leipzig sem Rangnick starfaði fyrir hér á árum áður.

Struber er 44 ára gamall Austurríkismaður og þjálfaði yngri lið RB Salzburg, annað systurlið Leipzig, áður en hann færði sig yfir í meistaraflokks fótbolta. Hann þekkir til á Englandi eftir að hafa þjálfað Barnsley frá 2019 til 2020.

Ljóst að Struber deilir sömu hugmyndafræði og Rangnick svo stóra spurningin er nú hvort sá síðarnefndi geti sannfært Austurríkismanninn um að skipta New York út fyrir Manchester.

Ekki nóg með það heldur virðist sem Rangnick ætli einnig að næla í fyrrum þjálfara New York, sá heitir Chris Armas og er 49 ára Banddaríkjamaður. Armas lék með Chicago Fire og LA Galaxy ásamt því að spila 66 landsleiki.

Hann skapaði sér hins vegar nafn hjá New York Red Bulls þar sem hann var aðstoðarþjálfari frá 2015 til 2018 og aðalþjálfari frá 2018 til 2020. Síðan þá hefur hann starfað fyrir Toronto FC en virðist nú á leið til Manchester.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×